Í faraldrinum sem geisar hafa Hrísey og Grímsey þá sérstöðu að vera ekki landtengdar. Engin tilvik hafa komið þar upp og enginn í sóttkví. Annað gildir um Vestmannaeyjar, þar sem fyrsta tilfelli COVID-19 kom upp á sunnudag.


Andinn í Grímsey er ekkert sérstakur að sögn Gylfa Gunnars Gunnarssonar sjómanns. Ótíð hefur verið í vetur og ofan á bætist hættan af farsóttinni. Fólk er hrætt, enda töluvert af rosknum íbúum og heilbrigðisþjónustuna þarf að sækja til Akureyrar. Samgöngur geta fallið niður dögum saman vegna veðurs.

„Mér finnst að það eigi að kalla saman fund og banna umferð um eyna, áður en það verður of seint. Það er nokkuð einfalt í framkvæmd, að hvorki ferjan né flugvélarnar taki farþega,“ segir Gylfi. „Við höfum alla möguleika á að halda eynni hreinni.“ Enn sem komið er eru ferðir til og frá Grímsey óbreyttar og ferðamenn hafa komið þangað.

Um 30 manns eru í eynni yfir veturinn en eitthvað fleira á sumrin. „Það eru einhverjir sem hafa komið hingað í sjálfskipaða einangrun en ég veit ekki hvort það er von á fleirum,“ segir Gylfi.

Í Hrísey eru um 100 manns yfir veturinn. Þar er flugvöllurinn ekki í reglulegri notkun en ferjuferðir margar yfir daginn. „Eins og annars staðar er farið eftir tilmælum almannavarna og gerðar ráðstafanir í versluninni, veitingastaðnum, ferjunni, sundlaug og skóla, til dæmis hvað varðar hreinlæti,“ segir Linda María Ásgeirsdóttir sem rekur veitingastaðinn Verbúðina 66. Ferðamenn eru fáir þessa dagana og aðallega íbúarnir sjálfir sem fara á milli lands og eyjar. Hún segir nóg pláss í ferjunni, sem er á tveimur hæðum, og því þurfi fólk ekki að sitja þétt.


Linda_María_Ásgeirsdóttir.jpg

Linda María Ásgeirsdóttir

„Andinn í bænum er ágætur, en við erum með nokkuð hátt hlutfall af fullorðnu fólki en ekki mjög mikið af háöldruðu,“ segir Linda.

Ólíkt Grímsey, sem hefur lifibrauð sitt aðallega af fiskveiðum, er ferðaþjónustan mjög stór hluti af atvinnulífi Hríseyjar. Báðar eyjarnar eru skilgreindar sem brothættar byggðir hjá Byggðastofnun. Efnahagslega höggið er enn ekki komið fram í Hrísey. „Við erum enn þá á þessum rólegasta tíma ársins,“ segir Linda. „Við fengum hóp í síðustu viku og áttum von á fleirum í mars, en ég á ekki von á að þeir komi.“

Linda mælir ekki með því að fólk komi í eyna í sjálfskipaða einangrun en bendir þó á í glettni að húsið þar sem gæludýr voru geymd í einangrun sé enn þá til staðar.