Eyjamenn eru vonsviknir með afsvar innviða­ráðuneytisins við því að koma að fjármögnun nýrrar kaldavatnsleiðslu, hvorki með styrkjum né niðurfellingu skatta. Tvær af þremur leiðslum eru ónýtar og öryggisatriði að leggja nýja.

„Við skynjuðum góðan anda og skilning í samtalinu við ríkið og þess vegna kom algert afsvar okkur á óvart,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri. Samtalið við ríkið hefur staðið yfir í um ár en nú verður þrýst á þingmenn kjördæmisins að beita sér í málinu.

Eyjamenn fá vatn úr Eyjafjallajökli og þrjár neðansjávarleiðslur hafa verið lagðar, árin 1968, 1971 og 2008. Leiðslan frá 1971 skemmdist fyrst en hún var lögð á óhentugu botnsvæði. Árið 2014 gaf leiðslan frá 1968 sig og er nú aðeins sú nýjasta í lagi. Sú leiðsla er í góðu standi en mikilvægt þykir að hafa tvær virkar leiðslur.

„Ef lögnin myndi bila væri komið upp grafalvarlegt ástand. Þetta er stór og öflug lögn en það er alltaf öruggara að vera með tvær,“ segir Ívar Atlason svæðisstjóri vatnssviðs HS Veitna í Vestmannaeyjum.

„Fyrir 1968 söfnuðu Eyjamenn rigningarvatni. Það voru brunnar við hvert hús en þetta var ekki gott vatn og dugði ekki atvinnulífinu,“ segir Ívar. Færi vatnsleiðslan í dag yrði að grípa til neyðarráðstafana eins og að flytja vatn með tankskipum. Það var gert í miklu þurrkaári 1966 og voru fjölskyldur í Eyjum á biðlista eftir vatni.

Ný leiðsla kostar um 1 milljarð króna en um 1,3 milljarða með virðisaukaskatti. Bæjarstjórn hefur óskað eftir aðkomu ríkisins, til dæmis með niðurfellingu virðisaukaskattsins eða beinum styrk upp á 700 milljónir króna.

Þann 14. júli gaf innviðaráðuneytið Eyjamönnum afsvar í báðum tilvikum. Segir þar að fjármálaráðuneytið hafi ekki talið lagaheimild fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts. Einnig að styrkveiting myndi gefa fordæmi þannig að önnur sveitarfélög færu að sækjast eftir greiðslum fyrir vatnsleiðslur. En lagning þeirra er hlutverk sveitarfélaga.

„Við töldum að það væri skilningur á því að aðstæður í Vestmannaeyjum væru aðrar en við lagningu leiðslu á landi og ríkið hefur áður komið að lagningu vatnsleiðslu hér með fjárframlagi. Þannig að fordæmið er til staðar,“ segir Íris. „Venjulegar vatnslagnir á Íslandi eru ekki neðansjávar eins og hjá okkur. Þannig að þetta er flókin og dýr framkvæmd. Við erum því ósátt við að þurfa ein að bera allan kostnaðinn af henni eða öllu heldur íbúar í Eyjum og fyrirtæki þar.“ Hár vatnskostnaður skekki samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.

Að Ívars sögn var mikil undirbúningsvinna gerð árið 2008 sem mun nýtast áfram. Svo sem rannsóknir á hafsbotninum og kortlagning lagnaleiða. Verkefnið er hins vegar flókið og vandasamt því leiðslan, sem er 12,5 kílómetrar, þarf langan tíma í framleiðslu og aðeins er hægt að leggja hana í júlí þegar ölduhæð er minni en einn metri. Síðasta leiðsla var keypt frá danska fyrirtækinu NTK og tók það verk 18 mánuði.