„Það er með öllu ótækt að upp sé komin sú staða að keyra þurfi fiskimjölsverksmiðjur á olíu í stað grænnar raforku vegna ónógrar raforkuframleiðslu og eða lakrar flutningsgetu á rafmagni,“ segir bæjarráð Vestmannaeyja í bókun vegna skerðingar Landsvirkjunar á afhendingu rafmagns í vetur.

Bæjarráðið segir skerðinguna þýða að fiskimjölsverksmiðjur um allt land þurfi á komandi loðnuvertíð að framleiða rafmagn með olíu í stað grænnar raforku.

„Slíkt er í andstöðu við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og orkustefnu sem stjórnvöld hafa boðað. Þá er það alvarlegt mál ef sú staða kemur upp að ekki verði hægt að afhenda Herjólfi rafmagn til siglinga sem var mikið framfaraspor í loftslagsmálum,“ bókar bæjarráðið og skorar á stjórnvöld að tryggja afhendingu raforku um allt land.