Íbúar Vestmannaeyja og Snæfellsness eru þeir hamingjusömustu á landinu samkvæmt Íbúa­könnun landshlutanna.

Íbúar Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins voru þeir óhamingjusömustu í könnuninni og þeir einu sem voru marktækt óhamingjusamari en aðrir.

Best er að búa í Vestmannaeyjum, svo á Akureyri og Eyjafjörður hlaut bronsið.

Alls tóku um 10 þúsund manns þátt í könnuninni en sunnanverðir Vestfirðir, Strandir og Reykhólar komu verst út úr könnuninni þegar spurt var um búsetuskilyrði.

Mest lækkuðu Strandir og Reykhólar og Reykjanesbær á milli kannana en sú síðasta var gerð árið 2017. Grindvíkingar voru ánægðastir með sveitarfélagið sitt, því næst íbúar Vestmannaeyja og síðan Suðurnesjabæjar.

Íbúar Dalanna voru óánægðastir með sveitarfélagið sitt, því næst íbúar Fjarðabyggðar og Suðurfjarða og síðan Borgarfjarðarsvæðis.

Könnunin kannaði hug íbúa til búsetuskilyrða, aðstæðna á vinnumarkaði og afstöðu til nokkurra mikilvægra atriða, hamingju og hvort íbúar séu á förum frá landshlutanum.

Vífill Karlsson, Ph.D. í hagfræði hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, hafði yfirumsjón með gerð könnunarinnar, ásamt því að vinna úr niðurstöðum með Helgu Maríu Pétursdóttur hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

Könnunin fór fram í september og október í fyrra. Hún var gerð á þremur tungumálum, það er íslensku, ensku og pólsku. Útlendingar tóku mun meira þátt núna en í síðustu könnun.

Daníel Geir Moritz, grunnskólakennari og formaður knattspyrnudeildar ÍBV, flutti til Vestmannaeyja fyrir tæpum þremur árum. Unnusta hans, Sigurleif Kristmannsdóttir, er úr Eyjum.

„Við keyptum 230 fermetra einbýlishús hérna á verði blokkaríbúðar og þessar niðurstöður koma mér ekki mikið á óvart. Ég myndi segja að númer eitt tvö og þrjú er Eyjafólk er stolt af sinni sögu og sínu samfélagi. Það er enginn sem heldur meira með bænum sínum eða íþróttaliðinu sínu en Vestmanna­eyingar. Svo er líka gott aðgengi að fólki sem tekur ákvarðanir. Þetta er heppileg stærð af sveitarfélagi, hvorki of lítið né of stórt.“

Daníel bendir á að þjónustustigið sé hátt í Eyjum, mikil dagskrá fyrir börn og barnafjölskyldur og ótrúleg náttúrufegurð skemmi ekki neitt.

„Það sem lætur mér líða vel, sem íbúa í Vestmannaeyjum, er hvað Eyjamenn eru duglegir að stytta sér stundir með mjög mismunandi hætti. Hér er rosaleg dagskrá fyrir börn og barnafjölskyldur og það er mjög hátt þjónustustig. Veitingastaðir eru góðir og hér er besta brugghús landsins, sem hentar mér einstaklega vel.“