Eyjaskeggjar í Vestmannaeyjum vöknuðu við háværar drunur í nótt. Að sögn Veðurstofu Íslands mældust að minnsta kosti tvær eldingar um þrjúleytið í nótt, þó þær gætu hafa verið fleiri.

„Við fengum engar tilkynningar um eldingar en hins vegar mældust tvær eldingar suðvestur af Vestmannaeyjum,“ segir vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við Fréttablaðið.

„Þær mældust tvær en þær mælast ekki alltaf allar. Þær voru því líklega fleiri.“

Greint er frá því í Eyjafréttum í morgun að einhverjum íbúum í Heimaey hafi þótt upplifunin óþægileg í ljósi nýlegra frétta frá Reykjanesskaganum. Eyjamenn tengi eldingar við eldgos eins og þeir þekkja frá Surtsey og Eyjafjallajökli. Þá hafi drunurnar gert einhverja nátthrafna taugaóstyrka í ljósi sögunnar en gosið í Heimaey árið 1973 hófst einmitt að nóttu til.