Sveinn Wa­age, grín­isti og lands­þekktur Eyja­maður, segir að fréttir af hertum að­gerðum innan­lands séu svaða­legt sjokk. Sveinn var að klára að horfa á upp­lýsinga­fund al­manna­varna þegar Frétta­blaðið heyrði í honum.

Eins og fram hefur komið gaf Þór­ólfur Guðna­son það út á upp­lýsinga­fundi í dag að að­gerðir yrðu hertar innan­lands. Þá sagði hann það erfitt verk að ætla að skima alla gesti Þjóð­há­tíðar. Frétta­blaðið náði ekki í stjórnar­menn Þjóð­há­tíðar­nefndar vegna málsins. Eyjamaðurinn Sveinn verður kynnir á Þjóðhátíð og hefur margsinnis tjáð sig um hátíðina sem hann elskar.

„Þór­ólfur talar um þessi þekktu að­ferðir og við vitum hverjar þær eru. Fjölda­tak­markanir og fjar­lægðar­tak­markanir. Við vitum svo sem ekki ná­kvæm­lega hver þau eru en þetta lítur ekki vel út,“ viður­kennir Sveinn.

Til­hugsunin um enga þjóð­há­tíð tvö ár í röð hlýtur að vera grát­leg?

„Það þarf að finna sterkt orð. Grát­legt er kannski alveg á­gætt. Því sumarið hefur mikið snúist um þjóð­há­tíð, hún hefur verið mikið í um­ræðunni út af alls­konar hlutum, bæði góðum og slæmum. Það stefnir í mjög flotta þjóð­há­tíð, það hefur aldrei verið eins glæsi­leg dag­skrá, salan hefur gengið mjög vel og meira að segja lang­tíma­spáin er í lagi. Það voru mjög góð teikn um frá­bæra Þjóð­há­tíð. Fyrir Eyja­menn og aðra sem eru að halda há­tíðina er þetta svaða­legt sjokk.“

Þá bendir Sveinn á að há­tíðin sé gríðar­lega mikils virði fyrir Vest­manna­eyjar, á alla mögu­lega mæli­kvarða. „Þetta er ekki bara ÍBV, þetta er fyrir fólkið, fyrir­tæki í bænum og svo mikið af af­leiðum af svona há­tíð fyrir svona bæjar­fé­lag.“

Að­spurður segir Sveinn að eftir­væntingin hafi eðli málsins sam­kvæmt verið gífur­leg fyrir há­tíðinni. „Það átti enginn von á neinu öðru en að núna yrði þetta haldið,“ segir Sveinn. „Eftir­væntingin var mjög mikil og Eyja­menn stilla sig oft af, ætla á aðra hverja og svo fram­vegis og stemningin var gríðar­lega mikil fyrir þessa. 2020 riðlaði svo miklu hjá svo mörgum og núna var það mómentið sem við ætluðum ær­lega að fagna.“

Sveinn er von­góður um að hægt verði að halda há­tíðina með ein­hverjum hætti. „Við segjum líka út í Eyjum, þrátt fyrir böl og al­heims­stríð þá verður haldin Þjóð­há­tíð. Þannig við sjáum hvað setur.“