„Það eru engar tillögur né hugmyndir um kostnaðaráætlun komnar því þetta er enn á undirbúningsstigi. Það er verið að huga að því að finna framtíðarlausnir vegna fjölgunar skipa, hvernig við komum þeim fyrir, hvernig aðgengið verður og hvernig hægt er að koma farþegum til og frá skipum,“ segir Erlingur Guðbjörnsson, formaður framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja, um bókun ráðsins í vikunni.

„Það er alltaf verið að leitast við að bæta hafnaraðstöðuna og það eru ýmsir möguleikar í stöðunni.“

Eins og fjallað var um í Fréttablaðinu í gær var kallað eftir því að að bæta aðstöðu fyrir móttöku skemmtiferðaskipa enda væri þegar búið að bóka 124 skip á næsta ári, sem er aukning um þriðjung frá þessu ári. „Þetta er að aukast, ekki bara hér heldur úti um allt land.“