Eyþing (nú SSNE), Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, hafnar mörgum af þeim staðhæfingum sem Pétur Þór Jónasson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, hélt fram í viðtali í Morgunblaðinu í vikunni um starfslok sín.

„Stjórn Eyþings hefur aldrei sakað Pétur Þór Jónasson um kynferðislega áreitni á vinnustað, heldur þurfti stjórn að taka til meðferðar kvörtun undirmanns vegna óviðeigandi og ófaglegra samskipta. Orðið kynferðisleg áreitni er frá honum sjálfum komið,“ segir í yfirlýsingu stjórnarinnar. Í viðtalinu sagði Pétur að hann hefði verið kallaður á fund í október árið 2018 þar sem honum hefði verið sagt að upp væri komið „Me too mál“ á hendur honum. Ólíkt því sem Pétur heldur fram segir stjórnin enga sátt hafa náðst á milli Péturs og undirmannsins sem tilkynnti samskiptin.

Var honum boðinn starfslokasamningur á þessum fundi en endaði málið í uppsögn, málsókn Péturs gegn Eyþingi og að lokum dómsátt þar sem Eyþing greiddi honum tæpar 15 milljónir króna. Féll stærsti hlutinn, um 9 milljónir, á Akureyrarbæ.

Í ljósi þess að málinu sé lokið telur stjórnin „óskiljanlegt að framkvæmdastjórinn fyrrverandi haldi áfram að flytja málið opinberlega“, og hafi hún talið sig knúna til að gera athugasemdir.

Fram hafi komið á mörgum fundum að Eyþing hafi lengi glímt við rekstrarvanda og óháð úttekt var gerð á innra starfinu. „Ásakanir Péturs Þórs um upplognar sakir sem átyllu til brottrekstrar eiga sér enga stoð í veruleikanum.“

Í viðtalinu segir Pétur að reynt hafi verið að halda trúnað um sáttina, en leynd um málið hafi ekki verið hans ósk. „Þar sem um málefni starfsmanna Eyþings var að ræða taldi stjórn rétt að farið væri með gögn málsins sem trúnaðarmál, en aldrei hefur verið farið fram á að leynd ríki um kostnað,“ segir í yfirlýsingu Eyþings.