Á síðasta ári sendi Lyfja 10.093 kíló af lyfjum, sprautum og nálum í örugga eyðingu, það er 5 prósentum meira en ári fyrr.

Karen Ósk Gylfadóttir, sviðsstjóri hjá Lyfju, segir aukningu í öruggri eyðingu lyfja mikil gleðitíðindi. Örugg eyðing lyfja sé mikilvæg fyrir umhverfið.

„Lyf geta valdið skaða á umhverfinu og mega aldrei fara í rusl, vask eða klósett,“ segir Karen.

„Við höfum lagt áherslu á þetta undanfarið með því að stilla fram lyfjaskilakössum í apótekum Lyfju sem minna viðskiptavini á mikilvægi þess að sýna ábyrgð og skila lyfjum til eyðingar á réttan hátt.“