Ástandið virtist þó ekki hafa mikil áhrif á Helgu þegar Fréttblaðið ræddi við hana.

„Við förum aftur út um leið og það er orðið bjart aftur með skófluna,“ sagði Helga glöð í bragði en hún nýtur einnig góðs stuðnings frá hundunum sínum „Við erum með tíkurnar hérna úti að hjálpa okkur við þetta,“ sagði Helga og hló.

Helga vonast til að bíllinn fari aftur í gang eftir allt volkið yfir hátíðirnar.
Mynd/aðsend

Byrjaði með fyrstu snjókomunni

Helgi segir að atburðarásin hafi byrjað rétt fyrir jól þegar fyrsti snjóstormurinn mætti án þess að gera mikið boð á undan sér eins og landsmönnum er orðið vel kunnugt.

„En þá var bíllinn upp við húsið. Við náðum að grafa ansi góðan spotta í innkeyrslunni og koma bílnum fyrir neðan við brekkuna,“ segir Helga.

„En svo fór ég til Englands í viku, yfir jólin, því dóttir mín býr þar og maðurinn minn ætlaði að halda passa að ekki fenti yfir bílinn á meðan ég var í burtu,“ segir hún en slys á heimilinu hafi orðið til þess að hann gat ekki sinnt því sem skildi.

„Það vildi svo illa til að það sprakk kalda vatnslögnin hérna inni í eldhúsi hjá okkur svo það var allt á floti á meðan ég var í burtu. Þannig að hann var upptekinn í því að laga það og náði ekkert að sinna bílnum,“ segir Helga.

Snjórinn harður eins og steypa

Þegar Helga kom svo heim þann 29. desember hafi þau hjónin hafist handa við að grafa upp bílinn en það hafi reynst hægara sagt en gert.

„Þetta er alveg eins og steypa þetta er svo hart,“ segir Helga en snjórinn hafði hulið bílinn algerlega.

Það þarf glöggt auga til að koma auga á bílinn á þessari mynd.
Mynd/aðsend
Dagur tvö af mokstri.
Mynd/aðsend
Það var mikið verk að komast að bílnum en þessi mynd var tekinn á fimmta degi af mokstri.
Mynd/aðsend

„Við náðum framhlutanum næstum því lausum en við náðum ekki að opna alveg húddið en ætluðum svo að halda áfram að vinna í afturhjólunum en okkur langaði líka svo að athuga hvort bílinn færi yfirhöfuð í gang. Því þá gætum við kannski haft samband við bóndann hér á næsta bæ og athuga hvort hann gæti hjálpað okkur að grafa hitt upp,“ segir hún en bíllinn hafði þá legið undir meira en tveimur metrum af snjó.

Fenti aftur yfir allt saman

„Við vorum einhverja fimm daga að þessu en svo fór að hvessa aftur og það var alltof hvasst á einum deginum og svo byrjaði líka að snjóa aftur um nóttina núna á sunnudaginn,“ segir hún en ekki hafi fennt alveg aftur yfir bílinn en þó næstum því. „Það fylltist eiginlega alveg upp í holuna,“ segir Helga sem lætur það ekki á sig fá enda ekkert annað að gera en halda áfram að grafa þegar birtir.

Bíllinn eftir að fent hafði aftur yfir hann um helgina.
Mynd/aðsend