Ljós­myndarinn Håkon Broder Lund, á­kvað að eyða föstu­dags­nóttinni við rætur eld­gossins í Geldinga­dölum til að ná myndum af gosinu í ljósa­skiptunum.

„Það var samt varla hægt að sofa því það var svo spennandi að fylgjast með þessu. Svo er það líka frekar hættu­legt að sofa þarna ef vindurinn breytir um átt,“ segir Håkon í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Við vorum í raun ekki að sofa. Við vorum bara að njóta. Það var fínt að vera inn í tjaldi til að komast burt frá kuldanum og vindinum. Það var mikið rok og vel kalt,“ bætir Håkon við.

Håkon setur á sig gasgrímu við rætur eldgossins.
Ljósmynd/Håkon Broder Lund

Håkon eyddi nóttinni við gosið á­samt þremur vinum sínum en þau voru mættir á svæðið um ellefu­leytið á föstu­dags­kvöldið. „Við tókum svefn­poka með og planið var að sofa en það var ekki hægt að sofa því þetta var svo magnað,“ segir Håkon.

Á­samt hópnum sem Hákon var í voru um það bil tuttugu aðrir á svæðinu yfir nóttina að hans sögn. Þá kom hólfskefla af fólki um leið og það tók að birta.

Að sögn Håkons voru um það bil tuttugu manns sem eyddu nóttinni við rætur eldgossins.
Ljósmynd/Håkon Broder Lund

Spurður um hvort hann hafi ekki orðið þreyttur á að vera úti í kuldanum svona lengi, segir Hákon að hann hafi ekki fundið fyrir þreytu fyrr en á heim­leiðinni.

„Við vorum aldrei þreytt en um leið og ég kom í bílinn þá var ég alveg búinn á því. Við vorum svo þreytt að við lögðum bílnum í veg­kant og lögðum okkur í klukku­tíma fyrir heim­ferðina,“ segir Hákon en hópurinn var á svæðinu í meira en 11 klukku­tíma.

Spurður um hvort hann hafði ekki á­hyggjur af gasmenguninni, segir Hákon að bæði hann og allir í hópnum voru með gas­grímur.

Håkon var vel útbúinn fyrir ferðina enda öllu vanur.
Ljósmynd/Håkon Broder Lund
Fjölmargir lögðu leið sína að gosinu þegar það tók að birta um morguninn.
Ljósmynd/Håkon Broder Lund

Af öryggis­á­stæðum hefur lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum á­kveðið að loka fyrir um­ferð um Suður­strandar­veg að gos­stöðvum í Geldinga­dölum kl. 21 í kvöld. Þá verða Geldinga­dalir rýmdir fyrir kl. 24 eða á mið­nætti. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni á Suður­nesjum.

Håkon eyddi nóttinni við eldgosið ásamt þremur vinum sínum.
Ljósmynd/Håkon Broder Lund

Gera má ráð fyrir fjöl­menni við eld­gosið í Geldinga­dölum í dag en fjölmargir voru mættir á svæðið eftir að almannavarnir opnuðu fyrir umferð.

Hægt er að sjá fleiri myndir frá Håkoni á Instagram reikningum hans hér fyrir neðan.