Fyrrverandi prófessor við Drexel háskóla í Bandaríkjunum er grunaður um að hafa eytt 185 þúsund dollurum, sem samsvarar um það bil 23 milljónum króna, rannsóknarstyrk í fatafellur, tónlist á iTunes og fleiri. Hann var handtekinn síðasta mánudag grunaður um þjófnað og að hafa ráðstafað peningunum ólöglega.

Í frétt Washington Post segir að Prófessorinn, Chikaodinaka D. Nwankpa, hafi alls eytt 96 þúsund dollurum á strippklúbbum og íþróttabörum og 89 þúsund dollurum í mat og tónlist.

Upp komst um málið þegar endurskoðandi háskólans tók eftir því að Nwankpa hafði reynt að fá endurgreitt fyrir fjölda kaupa sem ekki hafði verið fengið leyfi fyrir. Prófessorinn reyndi að útskýra kostnaðinn við ferðirnar í strippklúbb sem viðskiptakostnað.

Þetta er í annað sinn sem kennarinn þarf að svara fyrir eyðslu á strippklúbbum, en eftir að rannsóknin hófst sagði Nwankpa upp starfi sínu og endurgreiddi háskólanum rúma fimmtíu þúsund dollara.

Háskólinn samdi um sektargreiðslur við bandaríska dómsmálaraðuneytið, gegn því að vera ekki lögsóttur.