Reykjavíkurborg hyggst taka í notkun grunnskólalíkanið Eddu, sem mun sjá um úthlutun fjármuna til grunnskóla Reykjavíkur. Líkanið hefur verið kynnt fyrir borgarráði og skóla- og frístundaráði, og er stefnt að því að taka það í notkun á næsta ári.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar, leiddi verkefnið. Segir hún að vitað hafi verið um nokkurt skeið að endurskoða þurfi úthlutanir til grunnskóla borgarinnar.

Þetta kom skýrt fram í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um rekstur grunnskóla. Í skýrslunni kom meðal annars fram að síðustu tvo áratugi hefði verið notast við sama Excel-vinnuskjalið til að úthluta fjármunum til grunnskóla og námu þeir tæpum 35 milljörðum króna í fyrra.

Talað var um skjalið sem „plástrað“ og „úrelt“ auk þess sem aðeins einn starfsmaður kunni á skjalið.

„Við erum að draga úr vægi greininga, hvort sem það er ADHD eða fötlun, við úthlutun fjármagns og mæta frekar nemendum þar sem þeir eru. Kennarar og foreldrarnir þekkja þá betur. Skólakerfið á að vera þess burðugt að geta mætt langflestum nemendum,“ segir Þórdís Lóa.

„Við erum að fjármagna sérstaklega deildarstjóra sérkennslu og stuðnings, svo erum við líka að opna á að það sé fagmaður annar en kennari með sértækan stuðning. Þetta skiptir miklu til að skólastjórnendur geti áttað sig á hverju þeir hafa úr að spila í sínu hverfi.“

Notaður verður sérstakur lýðfræðistuðull, sem verður endurskoðaður í hverju hverfi á þriggja ára fresti.

„Þarna getum við mætt fjölbreytileikanum í skólaflórunni í Reykjavík. Við getum þannig nýtt fjármagnið betur, tengt við árangursstjórnun og aukið eftirfylgd. Markmiðið er að ná fram bestun bæði rekstrarlega og faglega,“ segir Þórdís Lóa. Þá er gert ráð fyrir auknu samstarfi félagsmiðstöðva og skóla.