Á fyrstu hundrað dögum í stríðinu á milli Úkraínu og Rúss­lands högnuðust Rússar um 98 milljarða Banda­ríkja­dollara við út­flutning á jarð­efna­elds­neyti. Evrópu­sam­bandið var þá stærsti inn­flytjandinn. Þetta kemur fram í rann­sókn CREA, finnskrar stofnunar sem rann­sakar orku­gjafa og loft­mengun.

Sam­kvæmt rann­sókninni keyptu ríki Evrópu­sam­bandsins 61 prósent af því jarð­efna­elds­neyti sem Rússar fluttu út eða um 60 milljarða Banda­ríkja­dollara. Sum ríki, eins og Frakk­land, Kína og Ind­land hafa aukið við­skipti við Rússa á sviði jarð­efna­elds­neytis.

Banda­ríkin, ríki Evrópu­sam­bandsins og fjölda­mörg önnur ríki hafa sett for­dæma­lausar við­skipta­þvinganir á Rússa í von um að það muni hægja á inn­rás Rússa í Úkraínu. Þessi ríki hafa mörg á sama tíma flutt gífur­legan fjölda vopna til Úkraínu.

Yfir­völd í Úkraínu hafa kallað eftir því að Vest­ræn ríki rjúfi öll við­skipti við Rússa. Fyrir stríðið sáu Rússar fyrir 40 prósent af gasi sem notað var innan Evrópu­sam­bandsins og 27 prósent af olíu. Ráða­menn sam­bandsins neita segja við­skipta­bann ekki vera mögu­leika enn sem komið er, sam­kvæmt um­fjöllun Al Jazeera.

Lauri Myllyvirta, greinandi hjá CREA, sagði í sam­tali við Al Jazeera að gjörðir ríkjanna væru ekki í takt við orð þeirra. Í til­felli Frakk­lands fara kaupin ekki fram vegna lang­tíma­samnings, heldur velja Frakkar að versla við Rússa, frekar en önnur ríki.