Á fyrstu hundrað dögum í stríðinu á milli Úkraínu og Rússlands högnuðust Rússar um 98 milljarða Bandaríkjadollara við útflutning á jarðefnaeldsneyti. Evrópusambandið var þá stærsti innflytjandinn. Þetta kemur fram í rannsókn CREA, finnskrar stofnunar sem rannsakar orkugjafa og loftmengun.
Samkvæmt rannsókninni keyptu ríki Evrópusambandsins 61 prósent af því jarðefnaeldsneyti sem Rússar fluttu út eða um 60 milljarða Bandaríkjadollara. Sum ríki, eins og Frakkland, Kína og Indland hafa aukið viðskipti við Rússa á sviði jarðefnaeldsneytis.
Bandaríkin, ríki Evrópusambandsins og fjöldamörg önnur ríki hafa sett fordæmalausar viðskiptaþvinganir á Rússa í von um að það muni hægja á innrás Rússa í Úkraínu. Þessi ríki hafa mörg á sama tíma flutt gífurlegan fjölda vopna til Úkraínu.
Yfirvöld í Úkraínu hafa kallað eftir því að Vestræn ríki rjúfi öll viðskipti við Rússa. Fyrir stríðið sáu Rússar fyrir 40 prósent af gasi sem notað var innan Evrópusambandsins og 27 prósent af olíu. Ráðamenn sambandsins neita segja viðskiptabann ekki vera möguleika enn sem komið er, samkvæmt umfjöllun Al Jazeera.
Lauri Myllyvirta, greinandi hjá CREA, sagði í samtali við Al Jazeera að gjörðir ríkjanna væru ekki í takt við orð þeirra. Í tilfelli Frakklands fara kaupin ekki fram vegna langtímasamnings, heldur velja Frakkar að versla við Rússa, frekar en önnur ríki.