Næst fjöl­mennustu lýð­ræðis­kosningar í heimi hófust í dag. Kosningar til Evrópu­þingsins fara fram næstu daga en þeim lýkur á sunnu­dag. Hátt í 400 milljón manns eru á kjör­skrá en kosið er um 751 þing­mann til næstu fimm ára.

Lands­lagið í Evrópu er breytt, ekki síst vegna Brexit en einnig vegna upp­gangs lýð­hyggju­drifinna hreyfinga, popúlista, sem margar hverjar hafa lýst yfir efa­semdum um á­gæti Evrópu­sam­starfs. Það eru margar hliðar á þessum at­hyglis­verðu kosningum sem munu koma til með að varpa ljósi á hvernig stöðu Evrópu­sam­bandsins og á­herslum verður háttað næsta hálfa ára­tuginn.

Í til­efni kosninganna hefur sendi­nefnd Evrópu­sam­bandsins á Ís­landi, í sam­starfi við Unga Evrópu­sinna, á­kveðið að halda kosninga­vöku í Stúdenta­kjallaranum næst­komandi sunnu­dag þegar úr­slit kosninganna verða kunn­gjörð.

Michael Mann hefur verið með aðsetur á Íslandi í um tvö ár. Hann mun ávarpa gesti kosningavöku sendinefndar ESB á sunnudag.

Kosningarnar í ár margt um forvitnilegar

„Evrópu­þingið sinnir mjög mikil­vægu starfi en það, á­samt Ráð­herra­ráðinu, sem saman­stendur af ráð­herrum aðildar­ríkjanna 28, setur lögin,“ segir Michael Mann, sendi­herra ESB á Ís­landi, í sam­tali við Frétta­blaðið. Mann er þessa stundina staddur í Brussel á­samt fjöl­skyldu sinni en hann hefur starfað hér á landi undan­farin tvö ár.

„Ég held að margir van­meti stundum mikil­vægi Evrópu­þingsins og það starf sem þar er unnið,“ segir Mann og bætir við að það eigi við um íbúa ESB-ríkjanna en einnig Ís­lands. Á­kvarðanir þingsins hafi nefni­lega tölu­verð á­hrif á dag­legt líf Ís­lendinga sem eru hluti af innri markaði sam­bandsins í gegnum EES-samninginn.

Kosningarnar í ár séu margt um for­vitni­legar en hann segist vona að kjör­sókn verði með betra móti í þetta skipti en þau fyrri. „Evrópu­þingið fór ný­verið af stað með her­ferð sem ber heitið This Time I'm Vot­ing,“ segir Mann. Á­takið myndi á ís­lensku út­leggjast sem „Í þetta skiptið ætla ég að mæta á kjör­stað“. Þess beri þó að geta að minnkandi kjörsókn einskorðast ekki bara við ESB heldur hefur sú þróun átt sér stað í fjölda ríkja.

„Við bindum vonir við að það skili árangri,“ segir hann um herferðina.

Gefur lítið fyrir tal um lýðræðishalla ESB

Það sé mikil­vægt en störf þingsins og form­gerð ESB í heild kunni að flækjast fyrir mörgum. Slíkt sé ekki til þess fallið að hvetja fólk á kjör­stað „Þetta er ekki beint eins og innan­lands­pólitíkin þar sem lands­þingið setur lög. Þarna eru nokkur stig og einingar sem veldur því að fólk skilur á­kvarðana­töku­ferlið kannski ekki nógu vel,“ segir hann.

Á undan­förnum árum hafi raddir um lýð­ræðis­halla (e. democratic deficit) innan ESB orðið há­værari. Mann er ó­sam­mála slíku tali og segir að ESB og form­gerð þess séu skýrt dæmi um lýð­ræðið í verki þar sem fólki gefst tæki­færi til að hafa á­hrif með því að kjósa full­trúa.

„En við þurfum að standa okkur betur í að koma fólki í skilning um hvernig Evrópu­sam­bandið virkar.“

Mesta eftir­væntingin í tengslum við kosningarnar virðist vera hvernig þetta fer allt saman í Bret­landi. Einnig hver tekur við sem for­seti fram­kvæmda­stjórnar ESB af Jean-Clau­de Juncker. En hverju öðru verður á­huga­vert að fylgjast með?

Kosið er um 751 þingmann til Evrópuþingsins. Hátt í 400 milljón manns eru á kjörskrá.
Fréttablaðið/Getty

Flokkar um Evrópusamstarf standi sig vel

„Margir hafa spáð bak­slagi með upp­gangi lýð­hyggju­afla. Ég tel hins vegar að það sé ekki rétt að tala vanda­málið upp og spái því að flokkar á borð við EPP (European Peop­le's Par­ty), Flokkur evrópskra sósíal­ista (Par­ty of European Socialists), Banda­lag frjáls­lyndra og jafnaðar­manna (Alli­ance of Liberals and Democrats) og Græningjar (European Green Par­ty), svo dæmi séu tekin, fái góða kosningu.“

Það hefur vart verið rætt um Evrópu­sam­bandið í fjöl­miðlum undan­farin þrjú ár án þess að minnst sé á út­göngu Bret­lands úr sam­bandinu. Til stóð að Bretar færu úr sam­bandinu 29. mars síðast­liðinn, tveimur árum eftir að 50. grein Lissabon­sátt­málans sem kveður á um út­göngu var virkjuð. Svo fór hins vegar að meiri­hluti neðri mál­stofu breska þingsins sam­þykkti að fram­lengja 50. greinina og er nú fyrir­hugað að Bretar yfir­gefi ESB 1. októ­ber næst­komandi.

Bret­land tekur því þátt í kosningunum til Evrópu­þings og hefur því verið spáð að tveir stærstu flokkarnir í lands­pólitíkinni bíði af­hroð á meðan Brexit-flokki Nigel Fara­ge er spáð stór­sigri. Mann er sjálfur frá Eng­landi og hefur þar af leiðandi fylgst grannt með stöðu mála þar, einkum í tengslum við Brexit.

Brexit-flokkur Nigel Farage, eins af arkítektum Brexit, þykir líklegur til afreka í Evrópuþingskosningunum.

En hvernig er and­rúms­loftið í Bret­landi og er ein­hver spenna fyrir kosningunum?

Brexit-flokkurinn á mikilli siglingu

„Hún er dá­lítið sér­stök. Kosninga­bar­áttan hefur verið styttri en alla jafna. Kjör­sóknin hefur í gegnum tíðina verið tals­vert verri en til breska þingsins. Brexit-flokknum er líka ó­vænt spáð mjög góðu gengi en hann hugnast kannski mest þeim sem vilja yfir­gefa sam­bandið. Á sama tíma er síðan lík­legra að at­kvæði þeirra sem hlynntir eru á­fram­haldandi aðild að ESB dreifist á hina flokkana og að stóru flokkarnir [Verka­manna­flokkurinn og Í­halds­flokkurinn] gjaldi af­hroð vegna Brexit.“

Kosninga­vaka sendi­nefndarinnar og Ungra Evrópu­sinna fer sem fyrr segir fram á sunnu­dag á Stúdenta­kjallaranum og hefst hún klukkan 18. Þar verður boðið upp á veitingar í föstu og fljótandi formi. Mann verður sjálfur kominn hingað til lands frá Brussel og mun hann á­varpa hópinn og ræða við gesti á staðnum.

„Mark­miðið er að bjóða fólki að koma og njóta þess að vera saman, ræða mál­efni Evrópu, fá sér drykk og nasl og eiga á­nægju­lega stund saman,“ segir Mann að lokum en hann hvetur sem flesta til að mæta.