Evrópusambandið telur að skemmdarverk hafi verið unnin á gasleiðslum Nord Stream 1 og 2 sem liggja um Eystrasaltið. Þetta endurspeglar afstöðu Dana sem fyrstir greindu frá lekanum.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC en Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði að „allar vísvitandi tilraunir til að hindra notkun gaskerfisins munu hafa alvarlegar afleiðingar og verður mætt sterkasta mögulega viðbragði.

Evrópusambandið hefur þó ekki formlega sakað Rússland um að standa að baki skemmdarverkunum en það hefur þó Úkraína gert sem kallar verknaðinn hryðjuverkaárás af höndum Rússa.

Ursula von Der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambansins.
Mynd/epa

Áður hefur komið fram að mælistöðvar í Danmörku og Svíþjóð námu sprengingar um svipað leyti og lekinn kom fram sem þykir benda sterklega til þess að um skemmdarverk sé að ræða. Bjorn Lund, talsmaður jarðskjálftafræðimiðstöðvar Svíþjóðar, hefur sagt að „ekki fari á milli mála að um sprengingar hafi verið að ræða.“

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í yfirlýsingu á Twitter að skemmdarverkin virtust vera tilraun til þess að draga frekar úr stöðugleika orkumála í Evrópu og að þörf væri á tafarlausri og ítarlegri rannsókn í málinu.

Nord Stream 1 teygir sig 1.200 kílómetra undir Eystrasaltshafið og er ein helsta uppspretta Evrópu á náttúrulegu gasi fluttu frá Rússlandi. Til stóð að opna seinni leiðsluna NordStream 2 eftir að byggingu hennar lauk árið 2021 en frestað var að taka hana í notkun eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Dmitry Peskov, talsmaður ríkisstjórnar Rússlands, hefur sagt Rússar líti málið alvarlegum augum og að „ekki sé hægt að útiloka að um árás hafi verið að ræða“. Rússar hafa þó ekki játað ábyrgð sína í málinu með formlegum hætti.