Ólga og reiði ríkir innan Evrópusambandsins vegna framgöngu lyfjafyrirtækisins AstraZeneca. Greint var frá því um helgina að færri skammtar af bóluefni AstraZeneca við kórónuveirunni verði afhentir innan Evrópusambandsins næstu vikurnar en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Evrópusambandið telur útskýringarnar fyrirtækisins óásættanlegar og magnið sem verði afhent á næstunni sé mun minna en fyrri afhendingaráætlun gerðu ráð fyrir.

Samkvæmt The Guardian íhugar sambandið nú að banna útflutning á bóluefni til ríkja utan sambandsins vegna tafa í framleiðslu hjá AstraZeneca en talið er að fyrirtækið geti aðeins afhent helminginn af þeim 100 milljón skömmtum sem fyrirtækið hafði áður samið um að framleiða á fyrsta ársfjórðungi. Evrópusambandið batt miklar vonir við að bóluefni AstraZeneca og segir að ný afhendingaráætlun fyrirtækisins sé ekki ásættanleg fyrir Evrópusambandið sem hefur lofað því að 70 prósent allra fullorðinna verði bólusettir fyrir þriðja ársfjórðung.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar á að hafa rætt við Pascal Soriot, forstjóra AstraZeneca, í dag og gert honum ljóst að fyrirtækið yrði að standa við sín loforð. Evrópusambandið hafi tryggt sér skammta fyrir löngu og treysti á að fyrirtækið stæði við fyrra samkomulag.

13.800 skammtar til Íslands

Bóluefni AstraZeneca hefur enn ekki fengið skilyrt markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu en gert er ráð fyrir að það gangi í gegn á föstudaginn. Gangi það eftir er von á um 14 þúsund skömmtum af bóluefninu til landsins í febrúar. Heilbrigðisráðuneytið staðfesti þetta við fréttastofu RÚV fyrr í kvöld. Miðað við fyrri afhendingaráætlun hefðu skammtarnir þó átt að vera um 75 þúsund. Samkvæmt frétt RÚV komu upp vandræði við framleiðslu hjá AstraZeneca sem veldur því að mun færri skömmtum verður dreift á næstunni en gert var ráð fyrir.

Stella Kyriakides, yfirmaður heilbrigðismála hjá Evrópusambandinu hefur krafist þess að AstraZeneca auki fyrirsjáanlega og stöðugleika í afhendingu svo aðildarríki getu undirbúið fyrirhugaðar bólusetningar.