Ursula von der Leyen, forseti Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, viðurkenndi í dag að Evrópusambandið hafi gert mistök með því að vera Ítalíu ekki innan handar þegar COVID-19 faraldurinn tók sér fótfestu í landinu.
Forsetinn sagði að ómögulegt væri að sigrast á faraldrinum án þess að horfast í augu við sannleikann, sama í hvaða formi hann væri. „Það er satt að það var í raun engin tilbúin fyrir þetta. Það er einnig satt að of fáir voru til staðar þegar Ítalía var hjálparþurfi í byrjun faraldursins,“ sagði von der Leyen, á fámennu Evrópuþingi í dag.
„Fyrir þær sakir er réttlátt að Evrópa, eins og og hún leggur sig, biðjist innilegrar afsökunar.“
Gagnrýna viðbrögð ESB
Utanríkisráðherra Ítalíu, Luigi Di Maio, sagði ummæli von der Leyen vera mikilvægt skref í rétta átt. Ítalir hafa gagnrýnt Evrópusambandið harðlega fyrir lök viðbrögð við faraldrinum og benda á að aðgerðir hafi ekki gert nóg.
Yfir 22 þúsund manns hafa látist af völdum COVID-19 sjúkdómsins á Ítalíu sem er hæsta tala látinna í Evrópu. Þá hafa tæplega 170 þúsund manns greinst með veiruna í landinu.