Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur staðfest að beiðni Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, um frest á útgöngu landsins hafi borist en þetta kemur fram í frétt Guardian um málið. „Ég mun nú byrja að ráðfæra mig við leiðtoga Evrópusambandsins um hvernig brugðist verður við,“ skrifar Tusk á Twitter.
Hafði áður sagt að hann ætlaði ekki að sækja um frest
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur staðfest að óskað hafi verið eftir frekari frest um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Johnson hafði áður sagt að hann ætlaði ekki að sækja um frest en stefnt hafði verið að útgöngu 31. október næstkomandi.
Engin atkvæðagreiðsla fyrr en búið er að samþykkja lagasetningar
Útgöngusamningur Bretlands við Evrópusambandið var lagður fyrir breska þingið í dag en hann komst ekki til atkvæðagreiðslu. Samkvæmt breytingatillögu sem þingið samþykkti í dag verður engin atkvæðagreiðsla um samninginn fyrr en búið er að samþykkja allar lagasetningar sem tengjast samningnum áður en landið gangi úr sambandinu.
Þrátt fyrir að Johnson hafi sagt að ekki væri líklegt að Evrópusambandið myndi samþykkja frest á útgöngunni þá hafa háttsettir embættismenn Evrópusambandsins gefið í skyn að slíkur frestur verði veittur. Berist bón um frest mun Tusk þurfa að ráðfæra sig við leiðtoga þjóðanna sem eru í Evrópusambandinu og þarf niðurstaðan að vera einróma.
Fréttin hefur verið uppfærð.