Sennilega er gildi svifryksmengunar sem mældist í Dalssmára í Kópavogi um áramótin það hæsta sem nokkru sinni hefur mælst hefur í Evrópu. Um var að ræða mælingu svifryks sem er smærra en 2,5 míkrómetrar í þvermál. Gildið mældist 3014 μg/m3 en sjaldgæft er að klukkustundarmælingar á PM 2,5 mælingum í Evrópu fari yfr 800 μg/m3. 

Þetta kemur fram í minnisblaði sem lagt var fyrir bæjarráð Kópavogsbæjar á fimmtudag. Samatektin er byggð á rannsóknum Dr. Hrundar Ólafar Andradóttur og Dr. Þarstar Þorsteinssonar en þau eru prófessorar við Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöðð Íslands. Í minnisblaðinu er lagt til að skoða mætti að herða reglur um flugelda.

Fram kemur að fimmtán einstaklingar hafi leitað á bráðamóttöku um áramótin vegna andþyngsla en þar af hafi alvarleg tilfelli verið fimm.

Mengunina má rekja til flugelda. „Ýmis efnasambönd er að finna í flugeldum og mörg þeirra eru skaðleg heilsu manna og dýra. Áhrif svifryks á heilsu manna er m.a. háð stærð agnanna en minnstu agnirnar (2,5μg) komast djúpt í lungu manna og geta safnast þar fyrir eða farið út í blóðrás. Ef málmar eða PAH sambönd eru í rykinu eykst hættan enn frekar fyrir heilsu manna,“ segir í samantektinni. Öndunarfærasjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar eru raktir til svifryksmengunar.

Mesta mengunin af öllum stöðum á höfuðborgarsvæðinu mældist í Dalssmára í Kópavogi.  Í minnisblaðinu er stungið upp á að nýr staður verði fundinn fyrir brennu og flugeldasýningu sem haldin hefur verið í Dalssmára en forðast skuli að hafa slíka viðburði í dalverpum og í mikilli nálægð við íbúabyggð. Í minnisblaðinu er lagt til að stjórnvöld verði hvött til að skoða málefni sem varða flugelda; að fara yfir reglur um innihald og draga úr magni hættulegra málma og annarra efna sem hafi neikvæð áhrif á lýðheilsu. Þá mætti skoða hertar reglur um flugelda.

Loks er nefnt að hvetja mætti til umræðu um „réttmæti hinnar áralöngu hefðar að flugeldasala sé ein mikilvægasta leið fjármögnunar á björgunarsveitum.“