Bretar, Frakkar og Þjóð­verjar hafa á­kveðið að virkja svo­kallað „deilu­á­kvæði“ í kjarn­orku­samningi við Írani en á vef Guar­dian er á­kvörðuninni lýst þannig að hún geti þýtt enda­lok sam­komu­lagsins. Leið­togar ríkjanna sögðu á­kvörðunina hafa verið tekna með sorg í hjarta. Það þýðir að Íranir hafa verið kallaðir að samningaborðinu að nýju. Bandaríkjamenn yfirgáfu samkomulagið árið 2018.

Þeir segja að á­kvörðunin hafi verið tekin vegna þess að þeir óttast að Íranir séu nú einungis ári frá því að verða sér úti um kjarna­vopn. Líkt og fram hefur komið hafa írönsk stjórn­völd gefið út að þau muni virða sam­komu­lagið að vettugi og auðga úran eins og sig lystir, í kjöl­far þess að Banda­ríkin réðu af dögum hers­höfðingann Qa­­sem So­­leimani.

Í til­kynningu frá leið­togunum kemur fram að þeir hafi talið sig ekki átt neins kostar völ. Segir að á­kvörðunin hafi ekki byggst á ný­legri árás Írana gegn banda­rískri her­stöð í Írak né heldur vegna þess að Íranir skutu niður úkraínska far­þega­flug­vél fyrir slysni. Á­kvörðunn hafi verið tekin fyrir jól.

Þannig segir Heiko Maas, utan­ríkis­ráð­herra Þýska­lands, að Evrópu­þjóðir hafi ekki getað setið hjá á meðan Íranir brjóti gegn samningnum. Banda­ríkja­menn, sem í tíð Barack Obama voru í farar­broddi við gerð kjarn­orku­samningsins frá 2015, yfir­gáfu samninginn með öllu í tíð Donald Trump árið 2018 og tóku upp refsi­að­gerðir að nýju gegn landinu.

„Mark­mið okkar er skýrt: Við viljum varð­veita samningana og komast að diplómatísku sam­komu­lagi innan þess,“ segir utan­ríkis­ráð­herrann þýski. „Við munum tækla þetta saman með aðilum samningsins. Við köllum eftir því að Íran taki þátt á upp­byggi­legan hátt í samninga­við­ræðum sem nú hefjast.“