Evrópuþingið samþykkti í dag, með 571 atkvæði gegn 53, tillögu um að banna einnota plast innan sambandsins. Þar er átt við einnota plast sem notað er til dæmis fyrir matvæli og drykki svo sem diska, glös, hnífapör, eyrnapinna, drykkjarhrærur og blöðruprik. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram tillögu um bann á einnota plasti í maí síðastliðnum í kjölfar mikillar opinberrar umræðu eftir að heimildaþættir David Attenborough Bláa plánetan, Blue Planet, voru frumsýndir.

Enn á eftir að útskýra hvernig nákvæmlega framkvæmd bannsins verður en búist er sterklega við því að tillagan fari í gegn. Evrópusambandið vonast til þess að bannið verði komið á innan allra ríkja sambandsins árið 2021. Greint er frá á BBC og Deutsche Welle.

Næst mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taka upp viðræður við aðildaríki um hvernig sé hægt að innleiða bannið. Framkvæmdastjórnin vill að þingi og Evrópuráðið sé búið að samþykkja tillöguna áður en kosningar fara fram á næsta ári í maí. 

Sigur fyrir hafið og umhverfið

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar Frédérique Ries sagði eftir að samþykkt tillögunnar væri „sigur fyrir hafið, umhverfið og komandi kynslóðir.“

Víða um heim íhuga lönd leiðir til að takmarka einnota plastnotkun. Í Bretlandi voru sem dæmi kynntar tillögur í vikunni um bann á einnota plasti.

Sjá einnig: Bretar banna plaströr og eyrnapinna

Átta milljón tonn af plasti í hafið árlega

Samkvæmt evrópskum rannsóknum er um 150 tonnum af plasti fleygt í hafið á hverju ári. Það er þó aðeins lítill hluti ef litið er til alls heimsins en talið er að allt að átta milljón tonn af plasti lendi í hafinu árlega. Plast getur haft gífurleg áhrif á það líf sem þrífst í hafinu. Fiskar og stór spendýr eins og hvalir borða það stundum með þeim afleiðingum að meltingarvegur þeirra stíflast og þau geta ekki melt matinn sinn. Þau svelta því í raun með fullan maga af plasti.

Plast brotnar ekki upp og eyðist eins og önnur efni heldur brotnar niður í smærri eindir sem kallaðar eru örplast. Í vikunni voru kynntar niðurstöður evrópskrar rannsóknar sem sýndi í fyrsta skipti að örplast fannst í saur manna.

Sjá einnig: Örplast finnst í saur manna í fyrsta skipti