Þingmenn Evrópuþingsins hafa samþykkt nýja reglugerð sem kveður á um að breytingum á klukkunni verði hætt og ríkjum sem breytt hafa klukkunni tvisvar á ári verði gert að velja sér annaðhvort sumar eða vetrartíma frá árinu 2021. Málið á hins vegar enn eftir að hljóta samþykkis meðal ráðherraráðsins, að því er fram kemur á BBC.

Samkvæmt evrópulöggjöf er öllum 28 ríkjum Evrópusambandsins gert skilt að skipta yfir á svokallaðan sumartíma síðasta sunnudaginn í mars og aftur yfir á vetrartíma síðasta sunnudaginn í október. Í könnun evrópska ráðherraráðsins sögðust 84 prósent svarenda vilja hætta klukkubreytingum alfarið og þá gáfu 4,6 milljónir manns álit sitt á málinu.

Klukkubreytingar hafa einnig verið ræddar talsvert hér á landi en líkt og alþjóð veit eru engar slíkar breytingar gerðar hér á landi. Forsætisráðherra lagði í upphafi árs fram til umsagnar tillögur um mögulega tímabreytingu og voru tæplega tveir af hverjum þremur umsagnaraðilum hlynntir því að klukkunni yrði flýtt. Um þrjátíu prósent voru á því að ekki ætti að hrófla við klukkunni.