Bifröst hefur tekið upp á því að leiðbeina háskólum í Evrópu við framkvæmd fjarnáms en hann er meðal fremstu háskóla í heimi í kennsluháttum í fjarnámi.

Eftirspurn fjarnáms hefur færst í aukana og eru háskólar um allan heim nú þegar að færa kennslu sína í fjarnám til þess að sporna við dreifingu á kórónaveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

Háskólar á Íslandi tilkynntu um að skólum yrði lokað í kjölfar samkomubanns sem sett var á þann 16. mars síðastliðinn.

„Á síðustu vikum hefur fjöldi samstarfsskóla víðsvegar um Evrópu leitað til Bifrastar og óskað eftir leiðbeiningum og aðstoð um það hvernig fjarnámi er best háttað,“ segir í tilkynningu frá Bifröst.

Bifröst hefur þróað fjarnám sitt frá árinu 2004 og eru leiðandi á því sviði og leita nú fjölmargir háskólar til þeirra í þessum aðstæðum þar sem að hefðbundnir kennsluhættir eru ekki lengur valmöguleiki.

15 háskólar frá 10 löndum

Bifröst hélt opinn kynningarfund á netinu síðastliðinn föstudag þar sem starfsfólk skólans kynnti kennsluhætti og aðferðafræði skólans, sagði frá reynslu sinni og miðlaði hugmyndum sem hjálpað gætu skólum að hraða fjarnámsvæðingu sinni.

Fundurinn var haldinn á Microsoft Teams og tóku yfir 70 kennarar og stjórnendur 15 háskóla frá 10 löndum víðsvegar um Evrópu þátt á fundinum þar sem farið var yfir lykilatriði í fjarkennslu og starfsfólk Háskólans á Bifröst miðlaði meira en 15 ára reynslu sinni af kennslu í fjarnámi.

Stjórnendur skólans líta á það sem samfélagslega skyldu sína til að miðla þekkingu sinni.