Tugir milljóna Evrópu­búa ganga til kosninga í dag á síðasta degi kosninga til Evrópu­þingsins. Kosningar hafa staðið yfir frá því á fimmtu­dag og lýkur í kvöld. 28 þjóðir Evrópu­sam­bandsins kjósa um 751 sæti á þinginu.

Út­göngu­spár benda til að niður­stöður verði ó­líkar fyrri árum og at­kvæði muni dreifast á fleiri flokka og miðju- og vinstri-flokkar sem hafa stjórnað evrópu­stjórn­málunum í langan tíma muni missa sam­eigin­legan meiril­hluta sinn í fyrsta skipti. Þá hefur því verið spáð að þjóð­ernis­sinnar og öfga­hægri­flokkar muni bæta við sig fylgi í flestum Evrópu­löndum. Í Ítalíu, Bret­landi og mögu­lega Frakk­landi hefur slíkum flokkum verið spáð mestu fylgi af þeim sem eru í fram­boði.

Annað virðist upp á teningnum í Hollandi og Ír­landi en þar bentu út­göngu­spár til að flokkar sem séu hlið­hollir sam­bandinu og um­hverfis­málum hafi hlotið mest fylgi.

Um 426 milljónir manns hafa kosninga­rétt í dag. Sjö lönd hafa nú þegar kosið og 21 ganga til kosninga í dag. Um er að ræða stærstu lýð­ræðis­legu kosningar í heimi utan þing­kosninga í Ind­landi.

Á Spáni valdi fólk sér kjörseðla í morgun.
Fréttablaðið/EPA

Kjörsókn skipti miklu máli fyrir niðurstöður

Kosningarnar hófust form­lega á fimmtu­daginn í Bret­landi og Hollandi, Ír­land og Tékk­land fylgdu svo á föstu­dag. Í gær bættust svo við Lett­land, Malta og Slóvakía. Í dag eru meðal þeirra sem greiða at­kvæða því stærstu og fjöl­mennustu lönd Evrópu eins og Frakk­land, Þýska­land og Ítalía. Talið er lík­legt að kjör­sókn muni skipta höfuð­máli fyrir niður­stöður kosninganna, en að hún verði lík­lega ekki meiri en um 45 prósent.

Fyrstu niður­stöður frá löndum sem hafa þegar kosið eru væntan­legar um klukkan 17 í dag, en lík­lega verður ekki ljóst fyrr en seint í kvöld hvernig at­kvæði skiptast. Hægt verður að fylgjast með því seinni partinn hér á kosningasíðu Evrópusambandsins.

Að því loknu mun það lík­lega taka margar vikur að semja um meiri­hluta á þinginu og arf­taka nú­verandi for­seta fram­kvæmda­stjórnar Evrópu­sam­bandsins Jean-Clau­de Juncker, og annarra hátt­settra innan stjórnarinnar.

Greint er frá á Guar­dian og Reu­ters.