Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands segir að Evrópa þurfi að byggja upp eigin varnargetu, án aðkomu Bandaríkjanna. Þetta sagði hún í Sidney, þar sem hún er stödd í erindagjörðum.
„Við þurfum að tryggja að við séum sterkari,“ sagði Marinog bætti við að hún telur að Evrópa sé í vandræðum án Bandaríkjanna. Þá sagði Marin að Evrópa gæti ekki treyst á að Kína setji hömlur á stríðsrekstur Rússa.
Marin ítrekaði að Úkraína ætti að fá alla mögulega aðstoð til þess að sigra stríðið við Rússland, en hún sagði að aðstoð Bandaríkjanna hafi verið ómetanleg. Samt sem áður verði Evrópa að tryggja að hún geti staðið á eigin fótum þegar kemur að varnarmálum.
„Við verðum að tryggja að við séum að byggja upp okkar eigin getu þegar það kemur að evrópskum varnarmálum og tryggja að við getum tekist á við mismunandi aðstæður,“ sagði Marin.
Bíða eftir inngöngu í NATO
Fyrir innrás Rússa í Úkraínu átti Finnland í tvíhliða samskiptum við bæði Rússland og NATO-ríkin. Marin sagði að það hafi verið besta leiðin til þess að tryggja öryggi Finnlands. Hins vegar hafi aðstæður breyst eftir innrásina og sótti Finnland um aðild að NATO, ásamt Svíþjóð.
Finnar munu ganga í NATO í nafni friðar,“ sagði Sanna Marin þegar hún var stödd á Íslandi í nóvember. Hún ítrekaði að innganga landanna í NATO ætti að tryggja öryggi en ekki auka á óvinsemd gegn Rússlandi.
„Áður voru það einungis 20 prósent sem vildu ganga í NATO en nú er það í kringum 80 prósent,“ sagði Marin.