Eva Laufey fékk loksins svör frá Vegagerðinni vegna holutjóns sem hún varð fyrir á Akranesi í mars. Hún fær tjónið ekki bætt, en hún var sú fyrsta til að tilkynna holuna.
Fréttablaðið ræddi við Evu Laufey í mars þegar hún var ein af fjölmörgum landsmönnum til að lenda í tjóni vegna hola sem pligað hafa gatnakerfið undanfarna mánuði. „Það fóru tvö dekk og það er núna verið að skoða bílinn sem fór í viðgerð,“ sagði Eva Laufey þá.
Eva Laufey deilir nú frétt blaðsins að nýju á Facebook og greinir frá því að nú, tveimur mánuðum síðar, hafi hún loksins fengið svar frá Vegagerðinni. Tjón hennar mun ekki fást bætt.
„Ég trúi ekki að ég sé að röfla enn eina ferðina yfir þessum blessuðum vegum okkar en jæja. Í dag fékk ég þau skilaboð frá Vegagerðinni að ég fæ ekki tjón bætt vegna þess að ég var sú fyrsta að tilkynna stórhættulegar holur á veginum á Kjalarnesi,“ skrifar Eva Laufey.
Margir bílar lentu í tjóni vegna sömu holu og eru eigendur þeirra bíla heppnir að Eva Laufey hafi tilkynnt þær, því þá geta þeir fengið tjón sitt bætt.
„Þetta virkar semsagt þannig að sá fyrsti sem hringir og tilkynnir fær ekki tjónið bætt en hinir fá bætt. Geggjuð regla og hvetur okkur heldur betur til þess að tilkynna hættulega vegi,“ skrifar Eva Laufey og ljóst að kaldhæðnin drýpur af skrifum hennar.
Þá deilir hún frétt blaðsins af óförum hennar frá því í mars. „Þessi frétt var skrifuð í mars þegar óhappið átti sér stað og ég var að fá svar núna í lok maí varðandi tjónið. Ok bæ.“