Eva Hauksdóttir lögmaður segir að niðurstöður matsmanna sanni það að ekki hafi verið forsendur fyrir lífslokameðferð. Hún er hissa og hneyksluð að sérfræðingar og læknar séu að styðja kollega sinn í fjölmiðlum án þess að vita hvað þeir eru að tala um.
Móðir Evu var sett í lífslokameðferð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja haustið 2019. Hún segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar eða skýringar á því hvað væri að draga móður hennar til dauða, en hún var aldrei greind með lífsógnandi sjúkdóm þegar hún fékk hvíldarinnlögn á legudeild HSS.
Skúli Tómas Gunnlaugsson er grunaður um mistök í starfi sem hafi leitt til andláta sex sjúklinga, þegar hann starfaði á HSS. Hann tjáði sig um málið á Facebook nýverið þar sem hann greindi frá því að niðurstaða dómkvaddra matsmanna í málunum sé að sjúklingarnir hafi allir látist af náttúrulegum orsökum.
Eva segir að allir sérfræðingar sem hafa komið að málinu telji að það hafi ekki verið tilefni til þess að setja móður Evu í lífslokameðferð.
„Niðurstaða dómkvaddra matsmanna í máli móður minnar er að það hafi ekki verið tilefni til lífslokameðferðar. Það er í samræmi við niðurstöður annara sérfræðinga sem hafa að þessu máli komið,“ segir Eva í samtali við Fréttablaðið.
Að hennar sögn er lögreglan búin að senda málið til ákærusviðs. Næsta skref er því að ákærusviðið taki afstöðu til þess hvort ástæða sé til þess að gefa út ákæru eða ekki. Hún vonar að ákæruvaldið taki ákvörðun sem fyrst.
„Þetta algjörlega ömurlegt mál og ég hef samúð með sakborningum líka, sem og þeim sem eiga um sárt að binda vegna málsins. Við verðum líka að átta okkur á brotaþolum og þeirra fjölskyldum. Þetta er eins ömurlegt og það getur verið á allan hátt. Ég vona að ákæruvaldið drífi í því allra vegna að ákveða hvað það ætlar að gera. Ekki síst vegna þess að þetta er ekki venjulegt mál sem varðar tiltekna lækna og tiltekna sjúklingar, heldur er þetta mál sem varðar almenning,“ segir Eva og bætir við:
„Við verðum að geta treyst því í heilbrigðiskerfinu að fólk fái eðlilega meðferð og ef að verða mistök þá sé það einstakt og það sé tekið rétt á því. Þess vegna held ég fyrir alla held ég að það gott að fá niðurstöðu í þetta mál sem allra fyrst,“ segir Eva.
Undanfarið hafa ýmsir aðilar innan heilbrigðiskerfisins opinberar stuðning sinn við Skúla Tómas. Meðal þeirra sem styðja Skúla er Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og Ragnar Freyr Ingvarsson. Eva er hissa á þessum yfirlýsingum kollega Skúla.
„Mér finnst skrítið að sérfræðingar séu að styðja kollega sína án þess að vita um hvað þeir eru að tala, það er mjög sérstakt,“ segir Eva og bætir við að hún haldi að þessir aðilar séu að tjá sig um sakamál sem þeir einfaldlega þekki ekki.
„Það kemur þannig séð ekki illa við mig tilfinningalega. Ég er bara hissa og hneyksluð. En ég veit að það hefur fengið á aðra sem standa í sömu sporum. Sumum finnst þetta sárt.,“ segir Eva.