Eva Hauks­dóttir lög­maður segir að niður­stöður mats­manna sanni það að ekki hafi verið for­sendur fyrir lífs­loka­með­ferð. Hún er hissa og hneyksluð að sér­fræðingar og læknar séu að styðja kollega sinn í fjöl­miðlum án þess að vita hvað þeir eru að tala um.

Móðir Evu var sett í lífs­loka­með­ferð á Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja haustið 2019. Hún segist ekki hafa fengið neinar upp­lýsingar eða skýringar á því hvað væri að draga móður hennar til dauða, en hún var aldrei greind með lífs­ógnandi sjúk­dóm þegar hún fékk hvíldar­inn­lögn á legu­deild HSS.

Skúli Tómas Gunn­laugs­son er grunaður um mis­tök í starfi sem hafi leitt til and­láta sex sjúk­linga, þegar hann starfaði á HSS. Hann tjáði sig um málið á Face­book ný­verið þar sem hann greindi frá því að niður­staða dóm­kvaddra mats­manna í málunum sé að sjúk­lingarnir hafi allir látist af náttúru­legum or­sökum.

Eva segir að allir sér­fræðingar sem hafa komið að málinu telji að það hafi ekki verið til­efni til þess að setja móður Evu í lífs­loka­með­ferð.

„Niður­staða dóm­kvaddra mats­manna í máli móður minnar er að það hafi ekki verið til­efni til lífs­loka­með­ferðar. Það er í sam­ræmi við niður­stöður annara sér­fræðinga sem hafa að þessu máli komið,“ segir Eva í sam­tali við Frétta­blaðið.

Að hennar sögn er lög­reglan búin að senda málið til á­kæru­sviðs. Næsta skref er því að á­kæru­sviðið taki af­stöðu til þess hvort á­stæða sé til þess að gefa út á­kæru eða ekki. Hún vonar að á­kæru­valdið taki á­kvörðun sem fyrst.

„Þetta al­gjör­lega ömur­legt mál og ég hef sam­úð með sak­borningum líka, sem og þeim sem eiga um sárt að binda vegna málsins. Við verðum líka að átta okkur á brota­þolum og þeirra fjöl­skyldum. Þetta er eins ömur­legt og það getur verið á allan hátt. Ég vona að á­kæru­valdið drífi í því allra vegna að á­kveða hvað það ætlar að gera. Ekki síst vegna þess að þetta er ekki venju­legt mál sem varðar til­tekna lækna og til­tekna sjúk­lingar, heldur er þetta mál sem varðar al­menning,“ segir Eva og bætir við:

„Við verðum að geta treyst því í heil­brigðis­kerfinu að fólk fái eðli­lega með­ferð og ef að verða mis­tök þá sé það ein­stakt og það sé tekið rétt á því. Þess vegna held ég fyrir alla held ég að það gott að fá niður­stöðu í þetta mál sem allra fyrst,“ segir Eva.

Undan­farið hafa ýmsir aðilar innan heil­brigðis­kerfisins opin­berar stuðning sinn við Skúla Tómas. Meðal þeirra sem styðja Skúla er Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítalans og Ragnar Freyr Ingvars­son. Eva er hissa á þessum yfir­lýsingum kollega Skúla.

„Mér finnst skrítið að sér­fræðingar séu að styðja kollega sína án þess að vita um hvað þeir eru að tala, það er mjög sér­stakt,“ segir Eva og bætir við að hún haldi að þessir aðilar séu að tjá sig um saka­mál sem þeir ein­fald­lega þekki ekki.

„Það kemur þannig séð ekki illa við mig til­finninga­lega. Ég er bara hissa og hneyksluð. En ég veit að það hefur fengið á aðra sem standa í sömu sporum. Sumum finnst þetta sárt.,“ segir Eva.