Alþjóðlegt netglæpagengi, sem stolið hefur jafngildi 1,2 milljörðum íslenskra króna af 40 þúsund fórnarlömbum, hefur verið upprætt. BBC greinir frá þessu. Rannsóknin, sem Europol stýrði, teygði anga sína til Bandaríkjanna, Búlgaríu, Þýskalands, Georgíu, Moldóvu og Úkraínu. BBC greinir frá þessu.

Fram kemur að glæpamennirnir hafi sýkt tölvur notenda með spilliforriti sem heitir GozNym. Það safnaði saman bankaupplýsingum til að hægt væri að komast inn á bankareikninga fólksins.

Glæpahópurinn spratt upp úr spjallvettvangi þar sem glæpamenn auglýstu færni sína.

Fram kom á kynningarfundi í höfuðstöðvum Europol í Haag í Hollandi í dag að rannsóknin ætti sér enga hliðstæðu og að hún hafi verið unnin í samvinnu margra landa.

Tíu meðlimir hópsins hafa verið kærðir í Pittsburgh í Bandaríkjunum, fyrir margvíslegar sakir. Á meðal sakarefna eru þjófnaðir og peningaþvætti. Til þess voru notaðir bankareikningar í Bandaríkjunum og fleiri löndum. Fimm Rússar eru á flótta undan framgangi réttvísinnar. Þeirra á meðal er sá sem bjó til hugbúnaðinn og seldi til annarra glæpamanna.

Ýmissa annarra félaga í hópnum bíða kærur og ákærur fyrir hlutdeild í brotastarfseminni. Þeirra á meðal eru bæði höfuðpaur hópsins og tæknilegur ráðgjafi, sem búsettir eru í Georgíu. Einn maður hefur verið framseldur til Bandaríkjanna, en hann hafði það hlutverk að fara inn á bankareikninga fólksins. Menn hafa líka verið kærðir í Moldóvu og fyrir peningaþvætti í Þýskalandi.

Á meðal fórnarlamba netglæpanna voru lítil fyrirtæki, lögmannsstofur, stór alþjóðleg fyrirtæki og óhagnaðardrifnar stofnanir.