EURES, vinnumiðlun Evrópusambandsins, fagnaði 25 ára afmæli fyrir skemmstu og Íslendingar hafa tekið þátt frá upphafi í gegnum EES-samninginn. Tilgangurinn með stofnun EURES var að gera fólki kleift að nýta sér frjálsa för til vinnu. Á Íslandi hefur samstarfið helst nýst þegar kreppir að í efnahagslífinu.

„Notkun EURES-vinnumiðlunar jókst töluvert í kringum bankahrunið og er að aukast aftur núna,“ segir Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, en stofnunin hefur umsjón með verkefninu hér á landi.

EURES nær til allra Evrópusambands- og EFTA-landanna. Fram kom á þingi í tilefni afmælisins að 100 þúsund störf væru auglýst á hverjum degi í gegnum samstarfið, eða 75 á hverri mínútu. Þá hefðu 450 þúsund manns hlaðið upp starfsferilskrám sínum þar og 1.000 ráðgjafar væru til aðstoðar. Stærstur hluti starfs þeirra snýst um að upplýsa fólk um aðstæður á hverjum stað og kveða niður bábiljur sem oft eru til staðar.

Samstarfið er ekki hagnaðardrifið eins og aðrar vinnumiðlanir sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum. Engu að síður nær EURES yfir á bilinu 30 til 40 prósent af evrópskum vinnumiðlunarmarkaði. Áhersla er lögð á að samstarfið sé fyrir alla, bæði faglærða og ófaglærða.

Vinnumálastofnun heldur ekki nákvæmar tölur yfir hversu margar ráðningar raungerast, af hvaða þjóðerni fólk er og svo framvegis. Snýst aðkoma stofnunarinnar fyrst og fremst um auglýsingu og ráðgjöf en fólk hefur svo sjálft samband við vinnuveitendur.

Karl segir að flestir sem héðan fari í gegnum EURES fari til Póllands, sem er þá líklega að stærstum hluta fólk af pólskum uppruna. Sama gegnir um Eystrasaltslöndin. „Við sjáum að helmingur þessa fólk kemur ekki aftur á atvinnuleysisskrá eftir þetta tímabil,“ segir hann.

Einnig fara margir til Norðurlandanna og hafa fjölmörg störf verið auglýst í Noregi. Eftir bankahrunið fóru fjölmargir Íslendingar þangað, sérstaklega í byggingatengd störf og heilbrigðisstörf. Það eru enn tvær stærstu greinarnar auk ferðaþjónustu.

Flest störf sem eru auglýst hjá Vinnumálastofnun eru einnig auglýst í gegnum EURES-kerfið. Flestir sem koma til Íslands er ungt fólk frá hinum Norðurlöndunum, sérstaklega til að starfa í ferðaþjónustu. En einnig frá Þýskalandi og víðar.

Á þingi EURES kom fram að í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu muni hreyfanleiki vinnuafls í álfunni minnka að einhverju leyti, en Bretland hafði vissa yfirburðastöðu þegar kom að því að laða til sín faglært vinnuafl. Samstarf milli annarra landa hefur þó gengið einstaklega vel, til dæmis á milli Þýskalands og Spánar.

Sumir hafa haft áhyggjur af því að hreyfanleikinn valdi svokölluðum spekileka (e. brain drain) frá löndum Austur- og Suður-Evrópu til norðurs og vesturs. Að skattfé fari í að mennta fólk sem þjóni síðan öðrum löndum. Mælingar EURES sýna hins vegar að flestir, sem flytja til að vinna, dvelji aðeins í fjögur til fimm ár og snúi síðan aftur heim. Margir starfi skemur en aðeins 20 prósent flytji alfarið. Flestir snúa því fljótt aftur heim, með verðmæta reynslu og fé milli handanna. Fé sem stundum er nýtt til að koma á fót starfsemi í upprunalandinu.