Fjölskylda Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf fyrir tæpum fjórum vikum, leitar nú skipulega að honum í Dublin í samstarfi við lögreglu. Bróðir Jóns, Davíð Karl Wiium, segir málið verða skrítnara með hverjum deginum en fjölskyldan haldi í vonina og dreifi nú skipulega myndum af Jóni. 

Davíð Karl ferðaðist aftur til Írlands í gær til að leita að bróður sínum, en hann hafði komið heim til Íslands í nokkra daga. 

„Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom út var að hitta lögregluna og fara yfir stöðu mála. Það er í rauninni bara sama gamla sagan, við erum að vinna úr hinum ýmsu málum og púsla þessu saman,“ segir Davíð sem var úti að hengja upp veggspjöld með myndum af Jóni, þegar Fréttablaðið náði tali af honum.

Sjá einnig: Tapaði hálfri milljón í póker daginn áður

„Þetta verður náttúrulega bara skrítnara og skrítnara með hverjum deginum sem líður,“ segir Davíð. Síðast sást til Jóns laugardaginn 9. febrúar. Hann var staddur í Dublin ásamt unnustu sinni þar sem hann tók þátt í pókermóti.

Málið hefur vakið mikla athygli á Írlandi og hefur fjölskylda Jóns rætt við fjölmarga þarlenda fjölmiðla. Ótal ábendingar hafa borist til lögreglu síðustu daga um ferðir Jóns, en enginn þeirra hefur skýrt verðir Jóns að fullu. 

Sjá einnig: Týndur í tíu daga: „Ég þarf að finna bróður minn“

„Það er ekki sála sem veit ekki af þessu máli þannig þetta er farið að vera ansi skrítið, það hlýtur að vera einhver sem að veit eitthvað.“

Á sunnudaginn var greint frá því að lögregla vildi ná tali af leigubílstjóra eftir að ábending barst, frá viðskiptavini leigubílstjórans, að hann hefði sagst hafa ekið Jóni. Davíð kveðst því miður ekki vongóður um að sú vísbending muni miða leitinni áfram, en tímaspursmál sé hvenær leigubílstjórinn finnst. „Það eru ekkert miklar líkur að það sé eitthvað hald á bakvið það því miður. Við vitum ekki hvort hann fór í leigubíl en þessi ákveðna ábending, það er ekki líklegt að hún gefi okkur. Það breytir því þó ekki að við teljum ennþá mjög líklegt að hann hafi farið um borð í leigubíl svo við höldum áfram að herja á leigubílstjórana.“  

Þá hefur lögregla unnið að því að safna saman myndefni til þess að reyna að rekja ferðir Jóns.

„Við höldum bara áfram að vera sýnileg og biðla til almennings í þeirri von að það komi fleiri fram sem mögulega vita eitthvað,“ segir Davíð. Ábendingar hafa haldið áfram að berast inn á borð lögreglu en segir Davíð enga þeirra hafa leitt lögregluna áfram. „Það kemur að því. Það var ágætt í lögreglunni hljóðið og mikið sem þau eru að vinna að en ekkert sem þau gátu sagt okkur. Við höldum bara áfram að skipuleggja okkur og vera sýnileg og svo er bara að halda áfram,“ segir Davíð en hann er staddur í Írlandi ásamt móður sinni, bróður, systur og unnustu Jóns.

Sjá einnig: Leita enn leigu­bíl­stjórans: „Hið dular­fyllsta mál“

„Við erum að þræða göturna og vinna út frá ákveðnum kenningum sem við höfum og bara að bíða í þeirri von um að það birti til hjá lögreglunni. Í rauninni erum við að reyna að átta okkur á því hvert hann gæti mögulega farið. Við erum að fara á þessi kennileiti,“ segir hann að lokum.