Að minnsta kosti fimm eru látnir af völdum ofurfellibylsins Manghkut sem skall á norðurhluta Filippseyjum í nótt. Er um að ræða stærsta óveður á svæðinu það sem af er af ári. Tugþúsundir íbúa hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna óveðursins, en Mangkhut er fimmta stigs fellibylur. Íbúar lýsa því eyðileggingu og ótta.

Mikið úrhelli hefur verið vegna fellibylsins og yfirborð sjávar hækkað töluvert. Fjórir hafa látist á Filippseyjum og ein í Taíwan. Samkvæmt AFP-fréttastofunni létust tvær konur eftir að aurskriða féll á heimili þeirra. Þá drukknaði stúlka vegna flóða og öryggisvörður lést þegar veggur féll á hann í kjölfar óveðursins. Auk látinna á Filippseyjum lést kona í Taíwan eftir að háar öldur hrifsuðu hana á haf út.

Ricardo Jalad, yfirmaður almannavarna Filippseyja, segir að tölur látinna muni að öllum líkindum hækka með tímanum. Yfirvöld hafa sent leitarhópa á strjálbýlli svæði. Eyðilegging er gífurleg í borginni Tugegaro og urðu nær allar byggingar í borginni fyrir skemmdum. 

„Þetta var eins og heimsendir. Þetta var verra en Lawin,“ er haft eftir Bebeth Saquing, en Lawin er annað nafn yfir ofurfellibylinn Typhoon Haima, sem var einn sá öflugasti sem gekk yfir svæðið árið 2016.

Fellibylurinn stefnir nú í átt að Hong Kong og suðurhluta Kína þar sem viðbúnaður er mikill. Gert er ráð fyrir því að bylurinn gangi á land í Hong Kong á sunnudaginn sem fjórða stigs fellibylur áður en hann heldur áfram vestur yfir landið sem hitabeltisstormur.