„Það kom fram í máli mínu að ég væri ósátt og mér hefði þótt vænt um að hafa fengið að vita það fyrirfram, að það væri von á þeim í þingsalinn í dag,” segir Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sem gekk úr þingsal eftir orðaskipti við Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins og fyrrverandi flokksbróður sinn úr Framsóknarflokknum, fyrr í dag. Margir hafa velt því fyrir sér hvað það var nákvæmlega sem fór þingmannanna tveggja á milli.

Óvænt endurkoma Gunnars Braga og samflokksmanns hans, Bergþórs Ólasonar, á þing í dag vakti gífurlega athygli. Þingmennirnir tveir tóku sér hlé frá þingstörfum, líkt og frægt er orðið, eftir að umfjöllun um ummæli sem þeir létu falla á barnum Klaustur, hófst.

Lilja hefur áður sagt ummælin sem um hana voru látin falla umrætt kvöld á Klaustri, vera ofbeldi. Þá hefur hún sagst ekki hafa getað trúað því að menn töluðu með viðlíka hætti og þrír þingmenn Miðflokksins gerðu um hana. Í viðtali við Kastljós í nóvember síðastliðnum sagði hún þingmennina þrjá of­beldis­menn sem ættu ekki að hafa dag­skrár­vald.

Lilja segir endurkomu Miðflokksmanna eigi ekki að spilla fyrir þeim samfélagslega mikilvægu verkefnum sem eru á dagskrá þingsins. Framundan séu stór mál sem hún ætli að einbeita sér að. ,,Mér er fyrst og fremst umhugað um að störf þingsins geti haldið áfram. Við færum þetta uppá aðeins hærra plan. Ég er til dæmis með risavaxin verkefni á mínu borði, fjölmiðlafrumvarp, málefni kennara, stórbæta Lánasjóð íslenskra námsmanna, vísindafrumvarp. Að þessu ætla ég að einbeita mér.”