Meðal látinna eftir árás á tvær moskur í Christschurch í Nýja-Sjálandi gær eru þriggja ára barn og fjórtán ára drengur. 49 létu lífið í hryðjuverkaárásinni sem var hægrisinnuðum öfgamanni sem sendi beina útsendingu af morðunum á samfélagsmiðla. Árásin var vel skipulögð og það er engin tilviljun að hryðjuverkamaðurinn lét skarar skríða á föstudegi, sem er einmitt sá dagur sem margir múslimar sækja mosku. Dagurinn er heilagur líkt og sunnudagur í kristinni trú og laugardagur í gyðingdómi. 

Breska ríkisútvarpið fjallar um fórnarlömbin sem komu mörg til Nýja-Sjálands í leit að öryggi og betra lífi. Lögregla hefur staðfest að, að minnsta kosti eitt barn sé meðal látinna og fjöldi sé slasaður. Yfirvöld hafa þó ekki gefið út neinn formlegan lista yfir þá látnu.

Mucad Ibrahim, þriggja ára

Mucad var staddur í moskunni ásamt föður sínum og Abdi bróður sínum. Þeir náðu báðir að komast undan byssukúlum árásarmannsins en Mucad hefur sést síðan í gærmorgun. Fjölskyldan hefur í örvæntingu leitað að honum meðal slasaðra en ekki fundið hann. 

„Við teljum það líklegast að hann sé einn af þeim sem létust í moskunni. Eins og staðan er núna segja allir að hann sé látinn,“ er haft eftir Abdi bróður hans í nýsjálenskum fjölmiðlum. 
„Þetta er búið að vera mjög erfitt, fullt af fólki er búið að vera að hringja og bjóða fram aðstoð sína, þetta er búið að vera mjög erfitt. Við höfum aldrei þurft að takast á við neitt eins og þetta.“ Abdi lýsti bróður sínum sem kraftmiklum, fjörugum og brosmildum. 

Sayyad Milne, fjórtán

Sayyad var í Al Noor moskunni ásamt móður sinni í gær. Í samtali við nýsjálenska fjölmiðla minnist faðir hans sonar síns, sem hann segir næstum hafa látið lífið við fæðingu. „Hann var hugrakkur lítill maður. Þetta er svo erfitt, að hann hafi fallið fyrir hendur einhvers sem var alveg sama um allt og alla. “

Sayyad vildi verða atvinnumaður í fótbolta þegar hann var stór. Fjölskylda hans hefur ekki fengið það staðfest hvort hann sé lífs eða liðinn, en síðast sást til hans liggja á gólfi moskunnar særður. 

Daoud Nabi, 71

Daoud var fæddur í Afganistan en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Nýja-Sjálands á 9. áratugnum í kjölfar innrásar Sovétríkjanna á heimaland hans. Hann var lærður verkfræðingur og er sagður hafa verið heillaður af fornbílum. Daoud var formaður samtaka Afgana í Nýja-Sjálandi og þekktur stuðningsmaður annarra minnihlutahópa. 

Daoud er sagður hafa kastað sjálfum sér fyrir framan aðra í moskunni til að verja aðra fyrir skothríð hryðjuverkamannsins. Sonur hans Ómar sagði í samtali við NBC fréttastofuna. „Hvort sem þú ert frá Palestínu, Írak eða Sýrlandi, hann hefði verið fyrsta manneskjan til að rétta fram hjálparhönd. “

Naeem Rashid, 50 ára

Naeem var upprunalega frá Pakistan, en flutti til Nýja-Sjálands fyrir tíu árum. Hann starfaði sem kennari í Christchurst og á myndbandi af árásinni má sjá hvernig hann reyndi að tækla árásarmanninn en slasaðist alvarlega og lést á spítala. Bróðir hans Khurshit Alam, segist vera stoltur af bróður sínum, eftir að hann sá fyrrnefnt myndband. 

„Hann var hugrakkur maður, ég hef heyrt frá nokkrum...það voru nokkur vitni, þau segja að hann hafi bjargað nokkrum mannslífum þar með því að reyna að stoppa manninn,“ sagði hann. „Þetta er ennþá áfall fyrir okkur, sama hvaða hetja hann verður. Við erum stolt, en það er samt missir. Eins og að skera útlim af.“ 

Talha Rashid, 21

Talha var elsti sonur Naeems og var ellefu ára þegar fjölskyldan flutti til Nýja-Sjálands. Pakistanska sendiráðið hefur staðfest að hann hafi látist í árásinni. Hann hafði nýlega verið ráðinn í nýja vinnu og vonast til að ganga í hjónaband bráðum. 

„Ég talaði við Naeem Rasheed fyrri fáeinum dögum og hann sagðist ætla að koma til Pakistan til þess að gifta son sinn. Nú er ég að finna leiðir til þess að færa lík þeirra til Pakistan,“ er haft eftir frænda Talha

Khaled Mustafa 

Khaled og fjölskylda hans flúðu stríðið í Sýrlandi og flutti til Nýja-Sjálands í fyrra. Töldu þau landið vera öruggt, að sögn hópsins Syrian Solidarity New Zealand sem greinir frá andláti Khaleds. 

Sonur hans á unglingsaldri er sagður hafa fallið á árásinni og annar er alvarlega særður.

Amjad Hamid, 57 ára

Amjad var læknir sem flutti til Nýja-Sjálands fyrir 23 árum ásamt eiginkonu sinni Hanan til að byggja betri og öruggari framtíð fyrir sig og börnin sín. Þau eignuðust tvo syni í Nýja-Sjálandi.  Ekki hefur sést til hans frá því í gær morgun og er hann talinn hafa fallið í árásinni. „Þetta á að vera öruggt land. Nýja-Sjáland er breytt til frambúðar,“ er haft eftir syni hans Husam Hamid.  

Hosne Ara, 42 ára  

Hosne er talin hafa látið lífið í árásinni, en ekki hefur sést til hennar frá því í gær. Hún var stödd í Al Noor moskunni þegar árásin hófst. Eiginmaður hennar notast við hjólastól og var staddur í öðrum hluta moskunnar. Þegar fyrstu skothvellirnir heyrðust þá hljóp hún til hans, en var skotin áður en hún náði til hans. 

Hussain al-Umari, 35 

Hussain fór í mosku hvern föstudag og svo í kvöldverð til foreldra sinna. Hann ræddi við foreldra sína á fimmtudaginn og var spenntur þar sem hann hafði nýlega keypt sér nýjan bíl. 

Foreldrar hans hafa ekki heyrt í honum frá árásinni og er hann talinn hafa fallið þar. 

 Meðal látinna eru einnig fjórir aðrir pakistanskir ríkisborgarar, fjórir egypskir og fjórir jórdanskir ásamt fleirum. 

Umfjöllun Breska ríkisútvarpsins í heild sinni.