„Fá prinsipp eru hjá ríkis­stjórninni,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústs­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, í eld­hús­dags­um­ræðum á Al­þingi í kvöld. Full­yrðingin ætti við hvort sem litið væri til hval­veiðar, kjara­deilu ljós­mæðra, skipun dómara, utan­ríkis­stefnu eða vel­ferðar­mála. 

Sagði hann að nýju fjár­laga­frum­varpi sam­kvæmt fengju sjúkra­húsin og lög­regla minna en þau raun­veru­lega þyrftu. Enn væru eldri borgarar á bið­listum, með­ferðar­úr­ræði - fyrir börn og ör­yrkja - af skornum skammti og þá væri hús­næði allt­of dýrt. 

Sex þúsund börn byggju við fá­tækt og um hundrað eldri borgarar væru á spítalanum þessa vikuna því önnur úr­ræði væru ekki fyrir hendi. „Þetta er sorg­legur vitnis­burður um annars á­gætt sam­fé­lag,“ sagði Ágúst Ólafur.

„Engin prinsipp“ sitjandi ríkisstjórnar

Ís­land þyrfti ekki eða vera svona. Við værum ellefta ríkasta land í heimi með einungis 350 þúsund íbúa. Það ætti ekki að líðast að eldri borgarar og fjöl­skyldur þeirra byggju við bág kjör og ó­vissu. Ekki ætti að refsa ör­yrkjum fyrir að vinna, láta ljós­mæður fara í kjara­deilu eða lög­gæslu og sam­göngur drappast niður. 

„Við þurfum ekki að hafa sam­fé­lag þar sem ríkasta 1% lands­manna á meira en 80% þjóðarinnar. Við þurfum ekki að hafa bæjar­stjórann í Þor­láks­höfn með hærri laun en borgar­stjórinn í London. Við þurfum ekki að lækka veiði­leyfa­gjöld helmingi meira en það sem stendur til að hækka per­sónu­af­slátt fólks.“ 

Sagði hann raunar að engin prinsipp væru hjá sitjandi ríkis­stjórn. „Þetta er ekki spennandi ríkis­stjórn. Þetta er ríkis­stjórn sér­hags­muna og stóla­kaupa,“ sagði Ágúst og bætti við að kæmist Sam­fylkingin til valda myndi hún breyta sam­fé­laginu til batnaðar fyrir venju­legt fólk, „en ekki fyrir suma, eins og þessi ríkis­stjórn gerir“.

„Hættum að dekra við sérhagsmuni“

Í­trekaði hann vilja Sam­fylkingarinnar til að af­nema verð­trygginguna og of háa vexti með upp­töku nýs gjald­miðils. Sömu­leiðis myndi flokkurinn berjast fyrir nýrri stjórnar­skrá, gegn al­þjóð­legum fas­isma og þröng­sýni. Þá myndi flokkurinn leggja á­herslu á hags­muni neyt­enda, ný­sköpunar og smá­fyrir­tækja en ekki hags­muna stór­út­gerðanna og Mjólkur­sam­sölunnar. 

Þá væri engin á­stæða til að Ís­land þyrfti að vera dýrasta land í heimi. Hér á landi væri þvert á móti allt til alls. 

„Hættum að dekra við sér­hags­muni og sjálf­töku­liðið eins og þessi ríkis­stjórn gerir. Hlúum að hinum venju­lega Ís­lendingi og gerum líf hans og hennar auð­veldara og ó­dýrara,“ sagði hann að lokum.