Bill de Blasio, borgarstjóri New York, hefur biðlað til Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að senda heilbrigðisstarfsfólk af öllu landinu til borgarinnar.

„Ef það verður ekki farið af stað með átak til að fá lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða af öllu landinu á þá staði þar sem þeirra er mest þörf þá sé ég ekki fram á að við verðum með nóg af fólki til að koma okkur í gegnum þetta,“ sagði de Blasio við MSNBC í gær.

New York-borg er miðpunktur COVID-19 faraldursins í Bandaríkjunum. Þar hafa meira en 50 þúsund tilfelli verið staðfest. Þá hafa meira en 1.500 manns látið lífið, þar af um þúsund í vikunni sem er að líða.

Búist er við því að ástandið komi til með að versna næstu tvær til þrjár vikurnar. Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, fyrirskipaði í gær að öllum öndunarvélum og öðrum lækningatækjum í ríkinu skyldi forgangsraðað til sjúklinga með COVID-19.

Yfirlæknir á bráðamóttöku á spítala í New York sagði við Telegraph í gær að það væru komnar öndunarvélar en það þyrfti starfsfólk sem kynni á þær. „Margt af okkar fólki er veikt heima og enginn vill koma til að hjálpa, ég skil það mjög vel. Þetta er helvíti á jörðu,“ hefur Telegraph eftir lækninum.

Staðan fer einnig versnandi annars staðar í Bandaríkjunum. Í öllu landinu eru tilfellin orðin fleiri en 261 þúsund, þar af 15 þúsund í gær. Alls hafa 6.699 látist.

Útgöngubann er á vegum ríkjanna sjálfra, en ekki alríkisins. Mikill þrýstingur er nú á Trump að setja á útgöngubann á landsvísu, úrræði sem hann telur óþarfa á svæðum þar sem engin tilfelli hafa greinst.

Mikill fjöldi tilfella hefur greinst í Louisiana, Pennsylvaníu og Kaliforníu.

Alls er gert ráð fyrir að allt að 240 þúsund manns muni deyja af völdum veirunnar í landinu.