„Mér finnst þetta sorglegt,“ segir byggingatæknifræðingurinn Einar Haraldsson í samtali við Fréttablaðið. Einar, sem starfar á Vestfjörðum þessa daganna ákvað á morgun að fá lánaðan stóran jeppa og aka þrjár heiðar, á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar, sem merktar voru ófærar á vef Vegagerðarinnar. Þær voru allar greiðfærar smæstu gerð af fólksbílum.

Einar segir í myndbandi sem hann birti á Baklandi ferðaþjónustunnar á Facebook að fyrir vikið sé fólki gert að aka 560 kílómetra leið, sem sækja þurfi þjónustu á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar - aðra leiðina. Samtals séu þetta um 1.100 kílómetrar fram og til baka, í stað 340. „Það er verið að reyna að hafa þetta sem eitt atvinnusvæði. Lögreglustjóri Vestfjarðar er lögreglustjóri beggja vegna, og sýslumaður líka, sem er á Patreksfirði. Svo er verið að samreka spítalann,“ bendir hann á.

Umræddar heiðar voru opnaðar eftir hádegi í dag, á veg Vegagerðarinnar. Þær hafa hins vegar verið lokaðar undanfarna daga, þó engin ummerki séu um að þær hafi verið ófærðar. Einar segist hafa rætt við snjómokstursmann Vegagerðarinnar í dag og hann hafi sagt honum að hugsanlega hefði verið bleyta eða drulla á Dynjandisheiði um helgina. Um það voru hins vegar engin ummerki, að sögn Einars. „Eina hættan er að verða tekinn fyrir of hraðan akstur. Ég hef sjaldan keyrt þessa vegi svona góða. Það er hvergi snjókorn á veginum, en aðeins hálka þegar maður kemur niður Barðastrandamegin. Ekkert mál,“ segir hann og bætir við. „Það er hægt að fara þetta á Yaris á sumardekkjum.“ 

Hann ítrekar að engin ummerki hafi verið um snjógöng eða að þarna hafi verið ófært að undanförnu. „Það var bara marautt, og þurr vegur.“ Hann segir á Facebook að þetta bitni bæði á ferðamönnum og ekki síður Vestfirðingum. „Þetta er dónaskapur gagnvart íbúum Vestfjarða.“

Hann óttast að innistæðulausar lokanir sem þessar verði til þess að fólk hætti að treysta lokunum. „Menn læra að hætta að taka mark á þessari lokun.“ Hann kallar eftir því að fólk á vel út búnum bílum sé sýnd tillitssemi. Hann hafi stundum lent í því vera meinað að fara um Hellisheiði á bílum sem hafi verið að koma niður af Langjökli – vegna þess að færð sé erfið fyrir smæstu bíla.

Uppfært: Svo virðist sem myndböndin hafi verið fjarlægð af Baklandi ferðaþjónustunnar á Facebook, en þar mátti sjá að rennifæri var á öllum heiðunum. Eitt myndbandið má þó sjá hér fyrir neðan.

Hér er annað myndband af ferð Einars og félaga.