Stjórnmálasamband Eþíópíu og Egyptalands hefur versnað til muna eftir að viðræður með milligöngu Bandaríkjamanna um smíði vatnsaflsvirkjunar í ánni Níl sigldu í strand. Langvinnar deilur hafa verið á milli Eþíópíu annars vegar og Súdana og Egypta hins vegar um stífluna, sem verður sú stærsta í Afríku og sú sjöunda stærsta í heiminum þegar hún á að vera tilbúin, eftir tvö ár. Ítalska byggingarfyrirtækið Impregilo, sem smíðaði Kárahnjúkastífluna, hefur umsjón með verkinu.

Smíði stíflunnar, sem er kennd við endurreisn Eþíópíu eða GERD, hófst árið 2011 og stíflar Bláu Níl, sem er stærsta aðrennslisáin í Níl á regntímabilinu. Alls renna um 49 milljarðar rúmmetra af vatni úr Bláu Níl í Níl árlega. Mun það taka um fjögur til sjö ár að fylla uppistöðulónið. Egyptar segja stífluna munu auka á vatnsskort í landinu.

Bláa Níl sameinast Hvítu Níl í Súdan. Inside Arabia hefur eftir Yasser Abbas, auðlindaráðherra Súdan, að áhrif stíflunnar verði bæði góð og slæm. Stíflan verði til þess að vatnsmagnið í Bláu Níl verði stöðugt en að sama skapi geti vatnsskortur haft neikvæð áhrif á bændur.

Egyptar hafa óttast stíflugerð í Eþíópíu í hundruð, jafnvel þúsundir ára. „Ef vatnsmagnið minnkar um tvö prósent þá missum við 200 þúsund hektara af landi. Einn hektari er lifibrauð heillar fjölskyldu. Þetta er þjóðaröryggismál,“ sagði Mohamed Abdel Aty, auðlindaráðherra Egyptalands, við BBC. Skjöl sem Wikileaks birti árið 2012 bentu til að Egyptar og Súdanar hefðu lagt á ráðin með að sprengja upp stífluna, því hafa bæði löndin hafnað opinberlega. Donald Trump Bandaríkjaforseti skipaði Steven Mnuchin fjármálaráðherra að miðla málum milli Egypta, Eþíópíumanna og Súdana. Fram kemur í miðlum í Eþíópíu og Egyptalandi að Eþíópíumenn hafi dregið sig úr viðræðunum þar sem tillaga Mnuchin sé einungis á forsendum Egypta. Segja ráðamenn í Addis Ababa nú að þeir hafi aldrei samþykkt milligöngu Bandaríkjamanna.

„Þetta er hrákasmíð sem snýr einungis að einu máli, hvernig skuli veita vatni úr stíflunni á þurrkatímum,“ sagði Seleshi Bekele, auðlindaráðherra Eþíópíu, við þarlenda fjölmiðla.

Til stendur að byrja að fylla lónið af vatni í júlí næstkomandi. Fek­ahmed Negash, embættismaður í auðlindaráðuneyti Eþíópíu, segir í samtali við tyrkneska miðilinn Anadolu að stíflan sjálf gæti leyst málið. „Ef það tekst að ná samkomulagi, þá fyllum við stífluna samkvæmt því. Ef við náum því ekki, þá munum við samt fylla stífluna og sýna þannig fram á að hún hefur lítil áhrif á vatnsmagnið. Virkjunin sjálf verður boðberi friðar og framþróunar í öllum löndunum þremur.“