Sjömenningarnir Sindri Þór Stefánsson, Matthías Jón Karlsson, Pétur Stanislav, Hafþór Logi Hlynsson, Ívar Gylfason, Kjartan Sveinarsson og Viktor Ingi Jónasson hafa verið ákærðir fyrir stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi síðastliðinn vetur. Búnaðurinn var notaður til bitcoin-vinnslu.

Þeim er gefið að sök að hafa lagt á ráðin, skipulagt, framkvæmt eða átt aðild að innbrotum og þjófnuðum í gagnaver í Reykjanesbæ og í Borgarnesi í desember í fyrra. Í innbrotunum var tölvubúnaði fyrir 42,5 milljónir króna stolið en tjónið af völdum innbrotanna er metið á 78 milljónir króna. Þetta kemur fram í ákæruskjali gegn mönnum sjö en aðkoma þeirra að málunum er ólík.

Í ákærunni kemur meðal annars fram að einn mannanna, Ívar, hafi látið Sindra Þór, Matthíasi Jóni og Pétri í té fatnað merktu öryggisfyrirtæki til að klæðast við innbrotið og þjófnaðinn.

Við rannsókn málsins fundust 14,34 grömm af kókaíni auk rafstuðbyssu. Farið er fram á að fíkniefnin og vopnið verði gert upptækt. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gefur út ákæruna.