Á bílasýningunni í Genf sem nú stendur yfir var tilkynnt um hvaða þrír bílar munu keppa um titilinn bíll ársins í heiminum. Það eru bílarnir Volvo XC60, Mazda CX-5 og Range Rover Velar. Á sama tíma var greint frá hvað bíll var valinn bíll ársins í Evrópu og hlaut Volvo XC40 þann titil nú. Það er því bjart yfir hjá Volvo um þessar mundir og vafalaust mikið fagnað á þeim bænum. Einnig verður valið á milli þriggja bíla í hinum ýmsu flokkum bíla. Í flokki smárra borgarbíla stendur valið á milli Ford Fiesta, Suzuki Swift og Volkswagen Polo. Í flokki lúxusbíla varður valið á milli Audi A8, Porsche Cayenne og Porsche Panamera. 

Í flokki sportbíla stendur valið á milli BMW M5, Honda Civic Type R og Lexus LC 500. Í flokki grænna bíla verður valið á milli BMW 530e iPerformance, Chrysler Pacifica Hybrid og Nissan Leaf. Einnig verður valinn best teiknaði bíllinn og þar stendur valið á milli Lexus LC 500, Range Rover Velar og Volvo XC60. Tilkynnt verður um sigurvegara í hverjum flokki, sem og hver hlýtur titilinn Bíll ársins í heiminum þann 28 mars í New York.