Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skrifaði í gær undir samning við Aserbaísjan um að tvöfalda flutning á asersku jarðgasi til Evrópu fyrir árið 2027. Tilkynnt var um undirritun samningsins eftir heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, til asersku höfuðborgarinnar Bakú í gær.

Samkomulagið er liður í viðleitni ESB til að draga úr innflutningi rússneskra jarðefnaeldsneyta. Þessa stundina er ekki verið að dæla rússnesku jarðgasi til Þýskalands vegna viðgerða á Nord Stream 1-gasleiðslunni og óttast hefur verið að Rússar ákveði að opna ekki aftur fyrir gasflutning að þeim loknum.

„Í ljósi áframhaldandi vopnavæðingar Rússa á orkuforða sínum er aukin fjölbreytni í orkuinnflutningi forgangsatriði okkar fyrir ESB,“ sagði framkvæmdastjórnin í yfirlýsingu á föstudaginn.

Samkvæmt samkomulaginu verður gasinnflutningur frá Aserbaísjan aukinn yfir fimmtán ára tímabil upp í 20 milljarða rúmmetra af gasi á ári.