Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar hafa háværar raddir verið uppi um að óásættanlegt sé að rússneskir ferðamenn geti ferðast til 27 ríkja Evrópusambandsins. Eftir erfiðar samningaviðræður utanríkisráðherra sambandsins, sem fram fóru í Prag í vikunni, hefur loks tekist að ná samstöðu um að gera rússneskum ferðamönnum erfiðara að fá vegabréfsáritanir til að komast á Schengen-svæðið. Samkomulagið var undirritað árið 2007, með það að markmiði að auka samvinnu og samskipti Rússlands og ESB.

Fimm ESB-lönd með landamæri að Rússlandi, Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Finnlandi og Póllandi vildu blátt bann við að veita Rússum vegabréfsáritanir, sem stjórnvöld í Úkraínu fóru einnig fram á.

„Leyfum þeim að dúsa í eigin heimi uns þeir tileinka sér nýtt hugarfar. Það er eina leiðin til að þrýsta á Pútín,“ sagði Volodymyr Zelenskyj Úkraínuforseti í viðtali í síðasta mánuði.

Aðgerðir litlu skilað

Ekki liggur fyrir hvort ríkin fimm grípi til harðari aðgerða til að sporna við ferðalögum Rússa. Pólland og Tékkland hættu að veita Rússum vegabréfsáritanir skömmu eftir innrásina og í síðasta mánuði hætti Eistland því sömuleiðis. Finnar hafa dregið úr veitingu þeirra um 90 prósent. Þar sem önnur lönd héldu áfram að veita áritanir höfðu aðgerðir í einstaka löndum hverfandi áhrif á fjölda Rússa sem ferðast hafa til Evrópu.

Tólf milljónir Rússa eru með gildar vegabréfsáritanir til ESB og utanríkisráðherrar sambandsins hafa falið framkvæmdastjórn þess að kanna hvort mögulegt sé að grípa til ráðstafana vegna þeirra. Af ríkjum ESB var Finnland vinsælasti áfangastaður Rússa árið 2019 er landið var heimsótt tæplega fjórum milljón sinnum samkvæmt rússneska landamæraeftirlitinu.

Alls fóru Rússar 48 milljónir ferða erlendis það árið, að langstærstum hluta til Tyrklands. Frá 2012 til 2019, áður en Covid-faraldurinn hófst, fjölgaði rússneskum ferðamönnum sem komu um Keflavíkurflugvöll ár frá ári. Voru þeir hátt í 17 þúsund árið 2019 samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu.

Gæti alið á andstöðu við ESB

Frakkland og Þýskaland vildu ekki ganga svo langt með þeim rökum að slíkt bitnaði mest á rússneskum almenningi og gæti gert stjórnarandstæðingum erfiðara að flýja heimaland sitt. Washington Post ræddi við ónefnda diplómata hjá ESB sem sagði að algjört bann gæti haft þær afleiðingar að snúa Rússum, sem andsnúnir væru stríðinu, gegn ESB.

„Við komum okkur saman um að slíta samkomulagi um samstarf ESB og Rússa um vegabréfsáritanir,“ sagði Joseph Borrell, utanríkismálastjóri sambandsins, eftir fund utanríkisráðherranna þar sem ákveðið var að slíta samkomulaginu. „Þetta er orðið þjóðaröryggismál fyrir nágrannaríkin,“ sagði hann enn fremur og það skyti skökku við að Rússar gætu ferðast um Evrópu sér til yndisauka líkt og innrás þeirra í Úkraínu væri ekki að eiga sér stað.