Evrópu­sam­bandið til­kynnti í dag um sjö­ttu um­ferð við­skipta­þvingana sinna gagn­vart Rússum. Meðal þeirra sem þvinganirnar beinast að eru fyrrum fim­leika­konan Alina Kaba­eva, sem er talin vera launkærasta Pútíns, og rúss­neskir her­stjórar sem eru taldir hafa framið grimmdar­verk í Úkraínu.

Hin 38 ára gamla Alina er ein frægasta fimm­­leika­­stjarna Rúss­lands og vann meðal annars til gull­verð­launa í fjöl­­þraut á Ólympíu­­leikunum í Aþenu 2004. Sam­band Kaba­evu og Pútíns er opin­bert leyndar­mál í Rúss­landi sem hefur í­trekað verið reynt að þagga niður. Þau hafa verið orðuð við hvert annað í um það bil ára­tug en hafa aldrei opin­berað sam­band sitt.

Banna inn­flutning olíu til ESB

Evrópu­sam­bandið bannaði einnig inn­flutning nær allrar rúss­neskrar olíu til ríkja sinna og út­hýst rúss­neska fjár­mála­fyrir­tækinu Sber­bank úr al­þjóð­lega greiðslu­kerfinu SWIFT. Þvinganirnar ná til tveimur-þriðja rúss­nesks skipa­út­flutnings og taka gildi eftir sex mánuði hvað hrá­olíu varðar og átta mánuði hvað hreina olíu varðar.

Slátrararnir af Bútsja og Maríu­pol

Á meðal hinna 65 nýrra nafna á lista Evrópu­sam­bandsins yfir ein­stak­linga sem við­skipta­þvinganirnar ná til eru Azat­bek Omur­bekov, stundum kallaður „slátrarinn af Bútsja“. Omur­bekov er sagður hafa farið fremstur í flokki í grimmdar­verkum rúss­neska hersins í bænum Bútsja þar sem Rússar eru taldir hafa framið fjölda­morð á ó­breyttum borgurum, nauðganir og pyndingar.

Einnig nefndur er hers­höfðinginn Mik­hail Mizint­sev, kallaður „slátrarinn af Maríu­pol“, sem ESB segir hafa skipu­lagt um­sátur og loft­á­rásir á hafnar­borgina Marípol þar sem þúsundir létust, þar á meðal hundruð barna. Rúss­nesk loft­skeyti hæfðu meðal annars fæðingar­spítala og leik­hús í Maríu­pol og barist var hart um borgina vikum saman áður en hún féll í hendur Rússa.