Áætlanir eru uppi innan Evrópusambandsins um að rifta samkomulagi um greiðar vegabréfsáritanir Rússa. Mun þetta gera rússneskum ferðamönnum erfiðara fyrir að komast inn á og ferðast um lönd Evrópusambandsins.

Fimm lönd, Finnland, Eystrasaltsríkin og Pólland, hafa þrýst á að hætt verði að veita Rússum vegabréfsáritanir. Hyggjast þau jafnvel hætta því sjálf þó að Evrópusambandið styðji ekki þá leið. Önnur lönd, til dæmis Þýskaland, hafa ekki viljað ganga svo langt.

Á miðvikudag verður fundað í Brussel um málið og líklegt er að farin verði nokkurs konar málamiðlunarleið. Það er að samkomulagi ESB við Rússland frá árinu 2007 verði rift. En það var gert á sínum tíma til að liðka fyrir góðum samskiptum milli Brussel og Moskvu.

Evrópusambandið hefur þegar sett á flugbann, hafnbann og bann við vegabréfsáritunum ákveðinna fulltrúa og viðskiptajöfra.