Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tilkynnt að hún hyggist kæra Ungverjaland til Evrópudómstólsins.

Deilur ESB við Ungverjaland snúa að tveimur málum. Hið fyrra er umdeild löggjöf sem stjórn Viktors Orbán og Fidesz-flokksins setti í fyrra og bannar námsefni eða efni fyrir börn sem kennir um hinsegin fólk, til dæmis með því að vísa til samkynhneigðar eða trans fólks. ESB telur lögin brjóta gegn megingildum sambandsins á borð við tjáningar- og upplýsingafrelsi, mannlega reisn og friðhelgi einkalífs. Stjórn Orbáns segir lögin til þess ætluð að vernda börn og að þau snúi að baráttu gegn barnaníði.

„Framkvæmdastjórnin ákvað að fara með málið fyrir dómstól þar sem ungversk stjórnvöld hafa ekki komið nægilega til móts við áhyggjur hennar og hafa ekki skuldbundið Ungverjaland til að bæta úr ástandinu,“ sagði Christian Wigand, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar.

Hitt málið sem deilt er um er lokun útvarpsstöðvarinnar Klubrádió, sem hætti útvarpssendingum í fyrra eftir að stjórn Orbáns neitaði að endurnýja útsendingaleyfi hennar. Klubrádió var einn fárra starfandi fjölmiðla í Ungverjalandi sem gagnrýndu ríkisstjórnina reglulega og buðu stjórnarandstæðingum að tjá sig. Framkvæmdastjórnin taldi lokun stöðvarinnar „ógagnsæa“ og ekki í samræmi við athæfi hennar.

Judit Varga, dómsmálaráðherra Ungverjalands, sagðist vona að dómstóllinn í Lúxemborg myndi leysa úr málunum Ungverjalandi í hag á grundvelli „almennrar skynsemi.“