Samgöngudeild Evrópusambandsins hefur til bráðabirgða samþykkt að leggja þá kvöð á bílaframleiðendur að allir nýir bílar sem seldir verða frá árinu 2022 verði búnir tækni sem hindrar hraðakstur.

Þetta mun að sögn spara þúsundir mannslífa. BBC greinir frá þessu. Þar kemur fram að reglurnar munu líka gilda í Bretlandi þó þeir séu að yfirgefa Evrópusambandið. Vegaöryggissamtökin Brake tala um tímamót í umferðaröryggi en Bifreiðasamband Bretlands (AA) bendir á að hraðaaukning geti gert framúrakstur á hraðbrautum hættuminni.

Á meðal þeirra öryggisráðstafana sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt er hraðastjórnun (ISA), neyðarhemlun og akreinavari. Sambandið segir að markmiðið sé að koma í veg fyrir alvarleg meiðsli 140 þúsund vegfarenda áður en árið 2038 rennur sitt skeið og að engin dauðsföll verði í umferðinni árið 2050.

BBC hefur eftir Elzbieta Bienkowska, sem fer með samgönguöryggismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að árlega látist 25 þúsund manns í umferðinni innan Evrópusambandsins. Mikinn meirihluta þeirra megi rekja til mannlegra mistaka. „Með þessum nýju öryggisráðstöfunum, sem verða lögboðnar, munum við bæta öryggi í umferðinni með álíka hætti og þegar öryggisbelti voru kynnt til sögunnar í fyrsta sinn.“

https://www.frettabladid.is/frettir/framtiarsn-volvo-um-engin-dausfoell/

Hraðatakmörkunin (ISA) byggir á GPS tækni. Bíllinn sækir upplýsingar í stafrænt kort sem segir til um hver hámarkshraðinn er á viðkomandi vegi. Fram kemur í frétt BBC að samhliða muni bíllinn nota myndavél til að lesa umferðarmerki. Ökumanni er hins vegar gert kleift að hunsa hraðatakmörkunina tímabundið, til dæmis til að ljúka framúrkeyrslu þegar ekið er inn á svæði þar sem hámarkshraði er lægri. Bíllinn mun ekki negla niður sjálfkrafa en gefa ökumanni viðvörun. Það er þá á ábyrgð ökumannsins að virða viðvörunina.

Tæknin hefur þegar verið hönnuð í suma bíla frá Ford, Mercedes-Benz, Peugeot-Citroen, Renault og Volvo.

Skemmst er að minnast þess að í síðustu viku kynnti Volvo öryggisbúnaðinn Care Kay til sögunnar. Hann verður í öllum nýjum bílum frá fyrirtækinu frá árinu 2021. Eigendur Volvo geta til dæmis notað Care Key til að stilla hraðatakmörk fyrir sig, fjölskyldumeðlimi og aðra sem þeir lána bílinn sinn. Því getur fólk lánað bílana sína og verið öruggt með hversu hratt þeim er ekið. Engum Volvo verður hægt að aka hraðar en 180 kílómetra á klukkustund frá árinu 2020.