Lög­menn fyrrum sjávar­út­vegs­ráð­herra Namibíu Bern­hard Esau, sem sagði af sér em­bætti í síðustu viku eftir Sam­herja­málið, kröfðust þess fyrir hæsta rétti í dag að hann yrði látinn laus úr varð­haldi sem hann var hnepptur í í gær.

Fjöl­miðillinn The Namibian greindi frá með­ferð málsins í hæsta­rétti í dag þar sem lög­menn Esau kröfðust þess að hann yrði tafar­laust látinn laus úr haldi og að heimild spillinga­lög­reglunnar (ACC) fyrir hand­töku hans verði yrði dæmd ó­gild. Eins og greint var frá í gær var Esau hand­tekinn í tengslum við rann­sókn ACC á spillingar­málum og mútu­greiðslum í sjávar­út­vegi landsins.


Hann er einn þeirra fjögurra sem eru sagðir tengjast mútu­greiðslunum en lög­reglan leitar enn hinna þriggja, sem hafa verið þekktir sem há­karlarnir. Það eru þeir James Hatuiku­lipi, fyrr­verandi stjórnar­for­maður ríkis­út­gerðar­fé­lagsins Fischor, Sacky Shang­hala, fyrr­verandi dóms­mála­ráð­herra Namibíu og Tam­son Hatuiku­lipi, tengda­sonur Esau og frændi James.


ACC fór fram á frest á með­ferð málsins í dag til að geta lagt fram nánari gögn í málinu, sem eiga að styðja við kröfu um varð­hald yfir Esau. Dómarinn féllst á kröfuna og var málinu frestað fram á þriðju­dag og verður Esau því á­fram í haldi, alla­vega fram á þriðju­dag.