Hinn 1. janúar 2021 varð Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ábyrg fyrir eftirliti með réttindum breskra ríkisborgara á Íslandi, Liechtenstein og Noregi eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.Í tilkynningu kemur fram að hið nýja valdsvið sé sett fram í útgöngusamningi Bretlands og EES EFTA ríkjanna. ESA getur skoðað mál sem varða réttindi breskra ríkisborgara sem fluttust til EES EFTA ríkja fyrir 31. desember 2020.
Þá kemur fram að jafnaði nái samningurinn ekki til breskra ríkisborgara sem fluttust til EES EFTA ríkja eftir þennan tíma. ESA getur komist að þeirri niðurstöðu að opinberir aðilar hafi ekki fylgt ákvæðum framangreinds samnings, einkum þegar almennir eða kerfisbundnir brestir hafa átt sér stað. Einnig getur stofnunin ákveðið að höfða mál fyrir EFTA dómstólnum.
Valdheimildir ESA koma ekki í stað núgildandi úrræða: Breskir ríkisborgarar í EES EFTA ríkjunum geta einnig nýtt sér gildandi kvörtunar- og áfrýjunarleiðir samkvæmt landslögum EES EFTA ríkjanna.
Eftirlit með réttindum EES EFTA ríkisborgara sem fluttu til Bretlands fyrir 31. desember verður framkvæmt af UK Independent Monitoring Authority (UK IMA).