Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir að Íslendingar séu ekki verr staddir en aðrar þjóðir þegar það kemur að bóluefni.
Eins og fram kom í fréttum í síðustu viku fá Ís­lendingar færri skammta af bólu­efni Pfizer og BioN­Tech um ára­mót en samningar gerðu ráð fyrir.

Þórólfur segir að Ísland fái hlutfallslega jafn mikið magn af bóluefni og aðrar Evrópuþjóðir.

„Þegar samningar eru gerðir er samið um heildarmagn sem við kaupum, nú þurfum við að sjá til hvernig gengur að framleiða bóluefnið og hvernig gengur að afhenda það. Það er ekkert óeðlilegt við að skammtarnir séu færri og ég held að við séum á nákvæmleg a sama báti og aðrar þjóðir," sagði Þórólfur í kvöldfréttum RÚV.

Hann segir að Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafi staðið eins vel að samningum og mögulegt var.

„Við erum búin að tryggja okkur eins og vel og hægt er. Nú ættum við að gleðjast yfir því að við erum að byrja og erum að fá bóluefni eins og allar aðrar þjóðir."

Hann segir að á þeim tíma sem samningarnir hafi verið gerðir hafi ekki verið hægt að semja um meira magn af bóluefni en kemur til landsins í fyrstu sendingu.

Ekki mistök að semja með ESB

Aðspurður hvort að það hafi verið mistök að semja við lyfjafyrirtæki í samfloti með Evrópuþjóðum segir Þórólfur að hann telji svo ekki vera.

„Ég held að það hefði verið mjög erfitt fyrir okkur ein út í hafi að semja við þessa stóru risa. Í fortíðinni hefur það reynst okkur ansi erfitt. Ég held að þetta hafi verið tryggasta leiðin sem við gátum farið til að tryggja okkur samninga við marga framleiðendur í einu og tryggja okkur þannig það magn af bóluefni sem við þurfum. Ég tel þetta hafa verið skynsamleg ákvörðun. "

Lyfjastofnun Íslands gefur út íslenskt markaðsleyfi fyrir bóluefni Pfizer og BioNTech gegn COVID-19 eigi síðar en á Þorláksmessu. Lyfjastofnun Evrópu (EMA) heimilaði í dag notkun bóluefnis gegn kórónuveirunni í löndum evrópska efnahagssvæðisins (EES). Fyrstu skammtarnir af bóluefni frá Pfizer eru væntanlegir til landsins 28. desember og gert ráð fyrir að bólusetning hefjist strax eftir áramót.