Þórólfur Guðnason lýsti yfir ánægju með nýjustu tölur á fundi almannavarna í dag. „Rúmlega 400 einstaklingum hefur batnað en virk smit eru nú 1.058 og virðast hafa náð ákveðnum hápunkti ef við skoðum kúrvuna út frá þeim sjónarhóli,“ sagði Þórólfur.

Einnig nefndi hann að búið væri að taka sýni úr um 7% þjóðarinnar, „og ef við skoðum alla þá sem sem hafa verið í sóttkví eða eru í sóttkví er það alls um 5% þjóðarinnar sem er ansi stór hluti,“ sagði Þórólfur á fundinum.

Þrír losnað úr öndunarvél

Alls eru 36 innlagðir á Landspítala og tveir á sjúkrahúsinu á Akureyri. Uppsafnaður fjöldi innlagna á Landspítala er því 80 og 6 á sjúkrahúsinu á Akureyri. Fjöldi útskrifaðra er 41 og 4 á Akureyri og á gjörgæslu liggja nú 11 einstaklingar á Landspítala og einn á Akureyri. Uppsafnaður fjöldi á gjörgæslu er 22 í Reykjavík og einn á Akureyri.

Aðeins einn er á Landspítala í öndunarvél og einn er í öndunarvél á sjúkrahúsinu á Akureyri. Þannig hafa þrír losnað úr öndunarvél. Enginn lést á síðasta sólarhring af völdum veirunnar.

Undir bestu spá og mörgum batnað

„Svo við leggjum mat á þetta og horfum til spálíkansins getum við sagt að uppsafnaður fjöldi greindra smita fellur vel að bestu spá líkansins.“ Það segir okkur að mörgum hafi batnað.

Uppsafnaður heildarfjöldi innlagna á sjúkrahús er nú 80 og því milli bestu og verstu spár en heildarfjöldi samkvæmt verstu spá mun vera 120. Varðandi sjúkrahúslegur á hverjum degi erum við þó undir bestu spá, fleiri hafa verið útskrifaðir en gert var ráð fyrir samkvæmt líkaninu.

Varðandi innlögn á gjörgæslu undanfarna daga sýnt aukningu umfram verstu spá en nú er fjöldi innlagna á gjögæslu búinn að lækka aftur á milli verstu og bestu spár.

Bráðakomum snarfækkað

Þá lýsti Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, yfir áhyggjum af því að bráðakomum hefur fækkað mjög mikið undanfarið og líkur aukist því á uppsöfnuðum bráðavanda.

Fólk með ný alvarleg einkenni eða króníska sjúkdóma sem versna eigi ekki að hika við að leita sér læknisaðstoðar.